Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjögur skip mæla loðnu um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Hafró
Fjögur veiðiskip halda til loðnumælinga um helgina og mæla í allt að sex daga. Mælingarnar eru kostaðar af útgerðunum því þær voru ekki á rannsóknaráætlun Hafrannsóknarstofnunar.

Loðnumælingarnar eru samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Hafró og loðnuútgerða. SFS og útgerðirnar styrkja Hafró um 65 milljónir króna til rannsókna á loðnu í þessum mánuði.  Styrknum er ætlað að greiða að fullu fyrir úthald fjögurra skipa í allt að 24 daga.

Grænlenska uppsjávarveiðiskipið Polar Amaroq lauk loðnukönnun sinni í síðustu viku. Sú könnun sýndi að útbreiðsla loðnu er austlægari en síðustu ár. Í frétt á vef Hafró segir að það geti þýtt að loðnan gangi fyrr suður fyrir land til hrygningar.

„Það, ásamt þeirri staðreynd að óvissa ríkir enn um hvort loðnuveiðar verði leyfðar í vetur, gefur tilefni til að reyna að ná mælingu á stærð stofnsins á þessum tímapunkti,“ segir í fréttinni.

Skipin sem mæla eru Kap, Jóna Eðvalds, Ásgrímur Halldórsson og grænlenska skipið Iivid. Um borð í hverju skipi verða þrír sérfræðingar frá Hafró.

Áform Hafró um að mæla með Árna Friðrikssyni í janúar eru óbreytt. Þá er gert ráð fyrir að kanna stærð stofninn í tveimur mælingum frá 15. janúar til loka febrúar.