Erfiðasta ákvörðun lífsins að láta barnið frá sér

Mynd: RÚV / RÚV

Erfiðasta ákvörðun lífsins að láta barnið frá sér

03.12.2020 - 09:38

Höfundar

Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt var aðeins nítján ára nemandi í Menntaskólanum á Akureyri þegar hún varð ófrísk af dóttur sinni. Henni var ljóst að hún gæti ekki haft barnið hjá sér ef hún ætlaði að klára námið svo hún tók þá ákvörðun að setja hana frá sér til tengdaforeldra sinna.

Sigríður var gestur Huldu Geirsdóttur í Sunnudagssögum þar sem hún sagði frá þeirri erfiðu reynslu, arkitektúrnum, hestamennskunni og því að kveðja eiginmanninn sem leikstýrði eigin jarðarför sjálfur.

Ekkert fínna en að vera kölluð kúasmali

Sigríður er fædd og uppalin í sveit. Hún er yngst sjö systkina og fór snemma að láta til sín taka í búskapnum. „Því meira sem maður fékk að gera því merkilegri fannst manni maður sjálfur vera. Ég man þegar ég var lítil og frændi minn kom í heimsókn. Hann klappaði á kollinn á mér og kallaði mig kúasmalann. Það fannst mér rosalega gott,“ rifjar hún upp. Hún er mikil sveitastelpa í hjarta og stundar hestamennsku af kappi.

„Ég var bara barn og þetta sneri lífi mínu við“

Foreldrar Sigríðar lögðu mikla áherslu á að systkinin færu í nám eftir grunnskóla. Sigríður hafði ekki úr mörgum skólum að velja en ákvað, þar sem hún átti tvö systkini í Menntaskólanum á Akureyri, að fara þangað. Það var ákvörðun sem hún sá ekki eftir „Það var mjög fínt þar. Við vorum á heimavist og það voru krakkar alls staðar að, jafnvel Reykvíkingar,“ rifjar hún upp. Félagslífið var öflugt og hún tók þátt í leikritum og lestrarklúbbum.

Í Menntaskólanum á Akureyri kynntist hún líka eiginmanni sínum heitnum, Hallmari Sigurðssyni. Með þeim tókust miklar ástir og á þriðja ári í menntaskóla, aðeins nítján ára gömul, varð Sigríður ófrísk. „Og ég var ekki ein um það. Við erum sex stelpurnar í mínum árgangi,“ segir hún. „Eitthvað hefur verið að gerast kynlegt í MA.“

En það var ekki auðvelt að verða þunguð svo ung og að eignast barn í Menntaskóla. „Ég var bara barn og þetta sneri svolítið við lífi mínu.“

„Þetta situr í mér“

Samfélagið segir hún að hafi tekið henni ágætlega, svo ungri móður, og hennar nánasta fólk og fjölskylda voru öll boðin og búin að verða parinu unga að liði. Hún gat ekki hugsað sér að hætta í námi því þá hefði hún setið uppi með barn, ekkert stúdentspróf og litla möguleika að komast út á vinnumarkaðinn.

Það reyndist henni þungt að geta ekki haft dóttur sína hana Herdísi hjá sér þennan vetur. Tengdaforeldrar hennar á Húsavík buðust til að taka barnið að sér á meðan hún kláraði námið. Foreldrarnir ungu þáðu það þó ákvörðunin hefði ekki verið auðveld. „Það var erfiðasta ákvörðunin í lífi mínu og ég mæli ekki með þessu,“ segir Sigríður alvarlega.

Hún heimsótti Herdísi þegar færi gafst en það var oft ó- eða illfært til hennar. Stundum sá hún dóttur sína ekki vikum saman. „Þetta var ábyggilega erfitt fyrir þau líka, að taka við barni. En þau létu mig aldrei finna fyrir því,“ segir Sigríður. „Þetta situr í mér.“

Hún stóð sig þó vel í náminu, enda staðráðin í því, og tók við uppeldi barnsins að fullu að námi loknu. Í dag eru Sigríður og Herdís nánar mæðgur og bestu vinkonur.

Tróð sér inn í arkitektanám

Litla fjölskyldan flutti til Stokkhólms þar sem þau bjuggu í sex góð ár. Hallmar hafði stefnt á leikhúsfræði og Sigríður fór að vinna til að byrja með en heillaðist svo af arkitektúr og sótti um í nám.

Hún fékk ekki inngöngu í skólann í fyrstu tilraun en var ekki tilbúin að sætta sig við neitun svo hún heimsótti skólann og sagði sinn árangur í menntaskóla alveg standa undir því að komast inn. „Ég fer og banka og spyr hvað valdi. Af hverju ég komist ekki inn,“ rifjar hún upp. „Þá vildu þeir að ég hefði tíu á stúdentsprófi.“ Sigríður sagði að tíu á stúdentsprófi tíðkaðist ekki á Íslandi og að hennar einkunn væri bara mjög góð. Skólastjórnendur þrættu ekki frekar við hana og hún fékk inngöngu. „Þannig tróð ég mér bara inn í skólann!“

Hún var ekki eina stúlkan í náminu en strákarnir voru sannarlega fleiri. Stúlkurnar skiluðu sér síður út í atvinnulífið en það segir hún hafa breyst. „Þegar ég kem heim var minnihluti konur en í dag held ég að það séu fleiri konur í faginu,“ segir hún.

Síðan hefur Sigríður starfað sem arkitekt og ferillinn hefur verið farsæll. Hún og hennar samstarfsfólk hefur meðal annars séð um alla hönnun og arkitektúr sem tengist Bláa Lóninu og hlotið fjölda verðlauna fyrir. „Ég hef verið svo heppin að ég hef alltaf haft nóg að gera,“ segir Sigríður.

„Er þetta arkitektinn?“

Ekki voru þó allir vanir því á þessum tíma að sjá unga konu láta til sín taka á sviðinu. Fyrsta stóra verkefnið sem hún tók þátt í sem arkitekt var þegar hún hafði umsýslu með Sláturfélagi Suðurlands sem þá ætlaði að flytja í Laugarnesið. Hún sat reglulega vikulega fundi að fylgjast með og loks var hún kölluð inn á aukafund og beðin um álit og aðstoð.

Einhverjum brá í brún að arkitektinn sem mætti á fundinn væri ung kona í móðins klæðnaði þess tíma. „Maður var með hárið úti um allt og tískan var sérstök. Við vorum í hálfsíðum jökkum með mikla axlapúða. Eins og herðatré í þessum fatnaði,“ segir hún og hlær.

Þá hafi einhver rekið upp stór augu og sagt: „Er þetta arkitektinn?!“ Það hafi enda ekki verið algengt að ungar konur væru í stærri verkefnum þá. „En það er að breytast núna,“ segir hún fegin.

Brúðguminn missti næstum af brúðkaupinu

Hjónin Hallmar og Sigríður giftu sig í Borgarkirkju á Mýrum um sumar en ferðalagið þangað gekk ekki alveg klakklaust fyrir sig. Gamall Benz var fylltur af fólki og því sem þurfti fyrir veisluna og lagt af stað að samkomustaðnum.  Á leiðinni lentu hjónaleysin og gestirnir í því skelfilega óhappi að Benzinn gafst upp og neitaði að ferja þau á áfangastað. Þá voru góð ráð dýr því það var bara einn leigubíll á Blönduósi en hann dugði skammt því hann rúmaði ekki allt dótið úr bílnum og farþegana.

Það var afráðið að brúðguminn sjálfur fórnaði sér og yrði eftir á Blönduósi. Þar gisti hann og kom ekki fyrr en daginn eftir með rútunni. Blessunarlega náði hann í sitt eigið brúðkaup í tæka tíð. „Þetta hafðist,“ segir Sigríður glettin og eftir það gekk allt vel fyrir sig. Borgarkirkja var fyllt og svo var dansað fram eftir nóttu. „Tengdapabbi spilaði harmonikku til morguns. Það rættist úr þessu.“

Ljóst að slagurinn væri tapaður

Hjónin voru saman í áratugi eða þar til Hallmar lést eftir erfiða baráttu við illvígt krabbamein. Sigríður segir að hann hafi lengi verið slæmur í maganum en verið tregur við að sækja sér lækningu. Þegar hann loks gerði það var krabbameinið langt gengið og horfurnar skuggalegar. Hallmar fór í eina stærstu aðgerð sem gerð hefur verið en hún gekk vel og fjölskyldan fann fyrir vonarglætu.

Sigríður kláraði hús hjónanna í Heyholti svo þar yrði íbúðarhæft og Hallmar fór að mála. Barátta Hallmars stóð í fimm ár en svo kom krabbameinið upp aftur og þá var ljóst að baráttunni væri brátt lokið. „Þegar þetta kom upp aftur þá töpuðum við slagnum.“

Leikstýrði eigin jarðarför

Sigríður segir Hallmar hafa unnið sér inn dýrmætan viðbótartíma með því að gangast undir þessa erfiðu aðgerð og hann nýtti þann tíma meðal annars til að undirbúa sitt fólk þegar ljóst var að örlögin yrðu ekki umflúin. Hann lagði drög að eigin jarðarför sem hann leikstýrði sjálfur og svo kvaddi hann eiginkonuna, dóttur sína og barnabörnin. Og einkadóttir hjónanna stóð sem klettur við hlið föður síns síðustu dagana. „Þetta var mikil sorg en þetta er lífið,“ segir Sigríður.

Lífið heldur áfram

Sigríður er mikið náttúrubarn og dvelur hún langdvölum í sumarhúsi sínu í Heyholti þar sem hún stundar hestamennsku af kappi. „Ég nota þetta í staðinn fyrir líkamsrækt. Þú þarft að vera mjúkur í skrokknum og þú þarft að vera sterkur. Þú þarft að hreyfa þig og þú færð hreint loft í lungun en svo færðu líka að umgangast dýr,“ segir hún. „Ef þú skeytir skapi þínu að dýrinu eða kemur fram við það illa á einhvern hátt ertu lengi að bíta úr nálinni með það. Þannig að þetta er líka mannbætandi að mínu mati.“

Í dag á Sigríður kæran vin sem deilir með henni áhugamálinu. „Lífið heldur áfram. Það þýðir ekkert að horfa í baksýnisspegilinn heldur bara að njóta stundarinnar á meðan hún gefst.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Sigríði Sigþórsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Víti frá syninum kom upp um krabbameinið

Menningarefni

„Framhjáhald getur verið það besta sem kemur fyrir“

Umhverfismál

Gaf sig almættinu á vald eftir að nemandi drukknaði