Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ekkert nöldur frá okkur þetta árið“

Mynd:  / 

„Ekkert nöldur frá okkur þetta árið“

03.12.2020 - 09:02

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar sjá enga ástæðu til að kvarta yfir tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þær séu traustar og fjölbreyttar og það veki eftirtekt að Arndís Þórarinsdóttir hljóti tilnefningu í tveimur flokkum.

Kollegarnir í Kiljunni, þau Kolbrún Bergþórsdóttir og Sverrir Norland, eru ánægð með þær bækur sem dómnefndir Íslensku bókmenntaverðlaunanna tilnefna í ár.

Um tilnefningar í umtalaðasta flokknum ár hvert, flokki skáldverka, segir Kolbrún Bergþórsdóttir að þar sé góður pakki á ferð. „Það er náttúrulega þannig þegar maður sér uppáhalds bókina sína á svona lista þá verður maður extra glaður,“ segir hún og á þar við skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snertingu. „Þetta er sambland af yngri höfundum og eldri og þetta hlýtur að vera sérstaklega ánægjulegt fyrir Arndísi Þórarinsdóttur, sem er tilnefnd í tveimur flokkum, fyrir barnabók og ljóðabók.“

Sverri Norland þykir gaman að sjá Jónas Reyni Gunnarsson fá tilnefningu fyrir þriðju skáldsögu sína, Dauða skógar, og fagnar því að Elísabet Jökulsdóttir sé einnig tilnefnd, fyrir skáldsöguna Aprílsólarkulda. Það komi svo ekki á óvart að Auður Ava Ólafsdóttir sé tilnefnd í ár. „Þetta er fjölbreyttur listi.“

Sjá einnig: Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar

Tilnefningar til fræðibóka og rita almenns efnis eru traustar, að mati Kolbrúnar og nefnir hún sérstaklega bók Péturs H. Ármannssonar um Guðjón Samúelsson. „Mér líst rosalega vel á hana, hún er algjört þrekvirki,“ segir Sverrir og nefnir einnig Fuglinn sem gat ekki flogið. „Hún er mjög fín og læsileg.“

Í flokki barna- og ungmennabóka vekur það kátínu að sjá Yrsu Sigurðardóttur á meðal tilnefndra, en hún hefur vissulega helst verið þekkt fyrir spennusögur sínar þrátt fyrir að hún hafi byrjað sem barnabókahöfundur. „Ég tek eftir því að þetta eru allt konur, allt konur sem skrifa fyrir börnin,“ bætir Kolbrún  við.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar