Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Dyrnar - Magda Szabó

Mynd: - / Dimma

Dyrnar - Magda Szabó

03.12.2020 - 13:43

Höfundar

Galdurinn við ungversku skáldsöguna Dyrnar er hvernig frásögnum og samtölum er raðað upp og niðurstaðan sem maður kemst að í lokin, segir þýðandi sögunnar, Guðrún Hannesdóttir.

Sögusviðið sjálft sé fábrotið; gata í Búdapest eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, í kjölfar mikilla umbrota og þjáninga ungversku þjóðarinnar. En Guðrún bendir á að sagan er ekki öll þar sem hún er séð. „Það er alveg hægt að hafa gaman af henni þó maður kafi ekki mjög djúpt. En þegar upp er staðið er hún alveg óhemju margbrotin.“ 

Höfundur bókarinnar, Magda Szabó, fæddist árið 1917 og var einn kunnasti og virtasti rithöfundur Ungverja, en hún lést árið 2007. Hún samdi skáldsögur, ljóð og leikrit og hafa verk hennar vakið athygli í öðrum löndum, ekki síst á síðustu árum. Ferill Szabó markaðist af pólitískum sviptingum í Ungverjalandi, eins og kemur fram í eftirmála Guðrúnar Hannesdóttur: Hún var háskólamenntuð, starfaði sem kennari fram að lokum seinni heimsstyrjaldar og byrjaði að skrifa á þeim árum. Eftir stríð starfaði hún hjá menntamálaráðuneytinu en missti stöðuna þegar kommúnistar tóku við stjórn árið 1949. Hún hlaut hin virtu ungversku Baumgartenverðlaun en var svipt þeim samdægurs af pólitískum ástæðum. Eiginmaður hennar var Tibor Szobotka, gagnrýnandi og þýðandi, en á árunum 1949 til 1958 voru þau bæði hindruð af stjórnvöldum í að gefa út verk sín og unnu þá við kennslu.  

Skáldsagan Dyrnar kom fyrst út á frummálinu árið 1987 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verið þýdd á mörg tungumál en það var ekki fyrr en árið 2020 að hún kom út í íslenskri þýðingu Guðrúnar. Í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur, í þættinum Orð um bækur, sem hlusta, sagði Guðrún að bókin hefði átt við sig erindi og því hefði hún leiðst út í að þýða hana, fyrst nokkra búta en síðan í heild. 

 

Í eftirmála Guðrúnar kemur fram að Dyrnar byggi framar öðrum verkum Mögdu Szabó á lífi höfundarins, en sagan gerist að mestu leyti í Búdapest á seinni hluta 20. aldar og segir frá rithöfundahjónum, húshjálpinni þeirra, Emerönsu, hundinum þeirra og nokkrum nágrönnum og ættingjum. Emeransa er eldri kona, sterk, stolt og ákveðin, og hún tekur frá upphafi stjórnina í samskiptum við hjónin eins og kemur fram í kaflanum „Samningurinn“, þar sem hún segist ekki þvo „skítugan þvott hvers sem er“. „Hún gekk ekki í þjónustu okkar,“ segir rithöfundurinn í bókinni, heldur tók ákvörðun um að sjá um húshaldið. Smám saman verður líf hennar samofið lífi þessara hjóna. Sérstaklega verða konurnar tvær tengdar og háðar hvor annarri þótt líka sé mikið um átök, enda fjallar þessi bók ekki síst um eðli samskipta okkar við annað fólk; um traust - og svik.