Reykjavíkurborg og nokkrar stofnanir hjá ríkinu hafa þegar gert tilraun með styttingu og Sonja segir það hafi í raun komið á óvart hve jákvæðar niðurstöðurnar eru. Það hafi reynst flestum auðveldara að skipuleggja starfsemina upp á nýtt en búist var við, starfsánægja hafi aukist og eins hafi áhrif á fjölskyldulíf og tilveru verið meiri en þátttakendur héldu í upphafi. Því styttri sem dagurinn varð því ánægðara varð fólk. Lagt er upp með að styttingin á hinum virku tímum í 36 verði án kostnaðarauka fyrir launagreiðanda og kjaraskerðingar fyrir launamann. Sonja segir að það hafi reynst tímafrekara að finna leiðir til að útfæra þetta á stöðum eins og leikskólum sem eru opnir í ákveðinn tíma. Hún segir að í vinnunni nú sé ríkið komið hvað lengst.
Ekki þannig að menn geti aldrei um frjálst höfuð strokið
Til að ná fram styttingu í 36 tíma vinnuviku gefur starfsfólk eftir forræði á matar og kaffitímum svo þeir verði sveigjanlegir. Það þýðir þó ekki að allir hlaupi þindarlaust og fólk geti hvorki fengið sér mat né kaffi á vinnudeginum. Sonja segir að hvorki hjá samtökum launafólks né launagreiðenda sé það markmiðið.
13 mínútur á dag ef ekki næst samkomulag
Að undangenginni vinnu vinnutímanefndar á hverjum stað, samtal og samráð við starfsmenn og stjórnendur á að leggja fram tillögur um útfærslu styttingar á hverjum stað og greiða atkvæði um tillöguna.
Séu þær samþykktar taka þær gildi um áramótin.
Ef starfsfólk nær ekki samkomulagi styttist vinnutími um 13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku um áramótin.