Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Uppistand Ara Eldjárns komið á Netflix

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix - Skjáskot

Uppistand Ara Eldjárns komið á Netflix

02.12.2020 - 14:08

Höfundar

Ari Eldjárn varð í dag fyrsti Íslendingurinn til að vera með sitt eigið uppistand á Netflix, en streymisveitan hefur gert sýningu hans, Pardon My Icelandic aðgengilega. Ari segir tilfinninguna að sjá sýningu sína á Netflix vera bæði stórkostlega og súrrealíska.

Ari hefur ferðast með sýninguna út um allan heim á síðustu árum og hefur unnið að upptökunni í langan tíma. Engu að síður segir hann að það hafi verið hálfóraunverulegt að sjá sýninguna loksins aðgengilega öllum. „Ég er búinn að sjá þetta margsinnis í klippitölvunni en að sjá þetta inni á veitunni með Netflix lógóinu var eiginlega bara eins og einhver annar hefði gert þetta,” segir Ari.

Lítið hefur verið um uppistand að undanförnu og þegar að tilkynnt var um samningin við Netflix sagði Ari að það væri hálfkaldhæðnislegt að flestir myndu sjá sýninguna þegar allt væri stopp í skemmtanahaldi. Ýmsir framandi hlutir væru í sýningunni eins og fjöldi manns samankominn inni í sal og enginn með grímu. 

Sjálfur segist Ari þó ekki getað beðið eftir nýjur ári sem gefur honum færi á að semja nýtt efni. „Ég er búinn að semja slatta af 2020-efni en ég get ekki beðið eftir að árið 2021 komi og þá mun ég henda öllu 2020-efninu og aldrei nota það aftur. Þetta ár má fara á ruslahauga sögunnar mín vegna,” segir Ari. „Fyrir utan þennan Netflix-áfanga,” bætir hann við að lokum. 

Áskrifendur Netflix geta horft á sýninguna Pardon My Icelandic með Ara Eldjárn á veitunni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Netflix uppfyllir langþráðan draum Ara Eldjárns

Menningarefni

Ari Eldjárn með þátt á Netflix