Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Umsóknum um aðstoð fyrir jól fjölgar um 30% í Eyjafirði

02.12.2020 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Aldrei hafa fleiri óskað eftir mataraðstoð hjá Velferðarsjóði sem þjónar Akureyri og nærsveitum. Umsóknir bárust frá 400 heimilum í Eyjafirði að þessu sinni, samanborið við 309 á síðasta ári. Formaður sjóðsins segir yngra fólk vera sækja meira í sjóðinn en áður.

400 heimili hafa óskað eftir aðstoð

Frá því árið 2013 hefur Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Rauði krossinn við Eyjafjörð og Hjálparstarf kirkjunnar unnið saman að því að veita fólki fjárhagsaðstoð fyrir jólin í formi gjafakorta í matvöruverslunum. Eins og við var að búast voru umsóknir um jólaaðstoð árið 2020 nokkuð fleiri en árin á undan. Umsóknir bárust frá um 400 heimilum á svæðinu, samanborið við 309 árið 2019.

Yngra fólk í neyð

Sigríður M. Jóhannsdóttir, formaður Velferðarsjóðs, segir yngra fólk sækja meira í sjóðinn en áður. „Það er meiri ásókn hjá okkur núna í ár en verið hefur og þetta er um 30% aukning frá því í fyrra. Það eru mest öryrkjar sem eru að sækja til okkar í ár og þónokkuð af yngra fólki, jafnvel frá 18 ára aldri,“ segir Sigríður.

Hvað skýrir þessa aukningu?

„Bara atvinnuástandið. Það er bæði atvinnumissir og lokun fyrirtækja og þyngra hjá öryrkjum.“

Hafa fengið hærri styrki en í fyrra

Sigríður segir vel hafa gengið að fjármagna aðstoðina í ár, enda styðja fyrirtæki og samtök á svæðinu myndarlega við sjóðinn. „Fyrirtæki og velunnarar hafa verið vel rausnarleg þannig að við náum að anna öllu. Jafnvel margir verið með hærri styrki í ár en oft áður.“