Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svona er hægt að spara heita vatnið í frosthörkum

02.12.2020 - 19:18
Innlent · Frost · Hitaveita · Neytendamál · Neytendur · Veðurfar · Veitur
Mynd: RÚV / RÚV
Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun vegna frosthörku sem er framundan og er fólk hvatt til þess að spara heita vatnið eins og kostur er. Verði of mikið heitt vatn notað gæti komið til skömmtunar. Upplýsingafulltrúi Veitna sýndi fréttastofu hvernig best sé að spara heita vatnið í kuldan sem er framundan.

„Ef notkunin verður of mikil gæti hitaveitan komist að þolmörkum og að við ættum þá ekki nægjanlegt vatn fyrir alla,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.

Og þurfið þið þá að skammta vatn?

„Þá þurfum við að skammta vatn já. Eða þá að það verður lægri þrýstingur til fólks.“

Hafið þið lent í því áður?

„Við höfum aldrei lent í því áður nei.“

11% aukning

Ættu ekki Veitur að vera í stakk búnar til þess að takast á við kuldakast í nokkra daga?

„Jú það ætti að vera þannig. En það sem við höfum verið að sjá undanfarin ár er mikil aukning í notkun,“ segir Ólöf. „11% hækkun frá því í fyrra, venjulega erum við að horfa á 1,5 til 4% hækkun á milli ára þannig að þetta er það sem við erum að eiga við núna.“

Ólöf segir að ekki sé vitað hvað skýri þessa auknu notkun. Hún segir að 90 prósent af því heita vatni sem notað sé, fari í að hita upp hús, og því sé til dæmis ekki endilega verið að hvetja fólk til þess að vera skemur í sturtu en venjulega.

En hvað er það sem fólk á helst að hafa í huga í kuldakastinu á næstu dögum?

„Það er að tapa ekki varmanum út úr húsunum, til dæmis með því að hafa glugga lokaða. Hér er einn opinn sem er ekki alveg til fyrirmyndar, það má loka honum. Og líka að hafa þá þétta, ég er nýbúin að setja gúmmílista í þennan og það er allt annað,“ segir Ólöf um leið og hún sýnir fréttamanni réttu handtökin. 

„Og svo eru það ofnarnir inni í stofu. Það þarf að gæta að því að það sé ekki að renna of mikið í gegnum þá. Og maður veit að það er hæfilegt þegar þeir eru heitir að ofan og kaldir að neðan. Ef þeir eru líka heitir að neðan þýðir það bara að það er að renna út heitt vatn, við erum að tapa varma og þar með líka krónum og aurum.“

Heitir pottar og snjóbræðsla

Þannig að fólk á ekki að stilla ofnana í botn?

„Nei ekki alveg í botn. Þeir eiga alltaf að vera kaldir að neðan, annars erum við bara að sóa. Svo er annað sem þarf að hafa í huga varðandi ofna, það er eins og hér, þetta er ekki alveg til fyrirmyndar. Hér er ofn á bakvið. Svona stór húsgögn þurfa að vera alveg 10 cm frá ofninum svo varminn geti leitað inn í rýmið. Og hið sama á við um gluggatjöld, þau eiga ekki að byrgja ofna.“

Hvað fleira þarf fólk að hafa í huga varðandi varmann?

„Það er kannski að vera ekki að nota heitu pottana þegar það er svona kalt og staðan er svona tæp, eins að vera ekki að setja aukainnspýtingu inn í snjóbræðslukerfi þar sem verið er að bæta vatni á. Bara að fara vel með heita vatnið þessa daga,“ segir Ólöf.