Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sárafátækt gæti blasað við vegna COVID-19

02.12.2020 - 04:16
epa06937818 A currency exchange office worker counts Turkish Liras in Istanbul, Turkey, 09 August 2018. Reports on 09 August state Turkish Lira hit record low against major currencies, recording 5.42 liras against the US dollar. The Turkish currency had
Tyrkneskar lírur. Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðabankinn áætlar að sárafátækt blasi við 150 milljónum manna á næsta ári. Átta af hverjum tíu er talið að verði íbúar landa sem búa við miðlungs afkomu og búi í borgum. Kórónuveirufaraldurinn hefur sett líf milljóna jarðarbúa úr skorðum og fjöldinn allur hefur misst vinnuna og lífviðurværi sitt.

AFP fréttastofan ræddi nýverið við fólk sem flest kvaðst í verri stöðu nú en fyrir fimm mánuðum þegar það missti vinnuna. Frakkinn Xavier Chergui, kvæntur, tveggja barna faðir á fimmtugsaldri segir í samtali við AFP að nú lifi fjölskyldan frá degi til dags.

Áður en faraldurinn skall á þénaði hann um 4.000 evrur á mánuði eða sem nemur ríflega 630 þúsundum íslenskra króna. Nú þarf fjölskyldan að lifa á 1.400 evrum eða 221 þúsund krónum.

Staðan varð erfið meðan á fyrsta útgöngubanninu í Frakklandi stóð en Chergui batt vonir við að birta myndi til í september. Hann hefur ekki unnið nema örfáa daga og segist láta eina máltíð á dag duga fjölskyldunni.

Leiga, rafmagnsreikningar og bílalán eru í vanskilum að sögn Cherguis en það sem eftir stendur þegar leigan hefur verið greidd fer í matarinnkaup.

Sonia Herrera, 52 ára kona frá Hondúras, búsett í Madríd á Spáni missti starf sitt sem heimilishjálp um leið og útgöngubann var fyrirskipað fyrr á árinu. Herrera býr með Alejöndru dóttur sinni, sem einnig missti vinnuna, og börnum hennar.

Sparifé þeirra er uppurið og þær reyna að ná endum saman með 1.000 evrum á mánuði, tæplega 160 þúsund krónum. Þar sem þær eru óskráðir innflytjendur eiga þær ekki rétt á lágmarkslaunum frá ríkinu. „Tilhugsunin um enn eitt útgöngubannið er skelfileg,“ segir Alejandra.

Fleiri lýsa svipuðum, skyndilegum breytingum á lífi sínu, lækkun á tekjum eða algeru hruni í afkomu. Einhverjir hafa flutt inn til foreldra sinna til að komast betur af. Margir segjast vera óttaslegnir og áhyggjufullir vegna óvissrar framtíðar sinnar.