Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ríkið samningsbundið til að koma málunum í rétt horf

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Það er minni réttaróvissa en var áður en dómurinn gekk,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, þegar hún er spurð hvort það hafi verið rétt af ríkinu að áfrýja Landsréttarmálinu til efri deildar Mannréttindadómstólsins. Ragnhildur segir jafnframt að íslenska ríkið sé samningsbundið til að koma málunum í rétt horf eftir að dómur féll. Enn sé spurning um Landsréttardómarann sem ekki hefur fengið endurskipun.

Snýr að dómaranum sem ekki hefur verið endurskipaður

Dómsmálaráðherra sagði í gær að ekki væri þörf að bregðast við dómnum. Dómar Mannréttindadómstólsins séu ekki lagalega bindandi hér á landi. Ragnhildur, sem var gestur Morgunvaktarinnar í morgun, segir að það sé rétt að hundruð dóma verði ekki óvirkir í ljósi niðurstöðunnar og það þurfi ekki að taka upp mál að nýju. „Og það er eins gott, að þarf þurfi ekki að taka upp sýknumál og ég veit ekki hvað og hvað. En þýðir þetta að ríkið beri ábyrgð á að koma málum í rétt horf? Já, til þess erum við samningsbundin. Ég gef mér að ríkið geri það sem þurfi að gera til að ná málum í gott horf.“

En hvað þarf að gera? „Það horfir fyrst og fremst að tvennu. Það eru þau mál sem voru dæmd áður en fyrsti dómurinn gekk. Það þarf að skoða hvað gildir um þau. Það er þá endurupptaka eða ekki endurupptaka. Það verður væntanlega sótt um hana. Svo er spurning um þá eða þann dómara sem var skipaður þarna í upphafi sem ekki hefur hætt og sótt um starf aftur,“ segir hún.

Dómsmálaráðherra að bregðast við

Dómurinn fjallaði um mál fjögurra dómara við Landsrétt. „Það sem þessi dómur tekur skýrar á en Landsréttardómurinn er að það er enginn að tala um hina ellefu [dómara Landsréttar]. Spurningin er aðeins með þessa þrjá til fjóra og það þarf auðvitað bara sem fólk þarf að setjast ofan í og er ekki búið að gera það núna 20 tímum síðar.“

Hverra er að gera það? „Það er auðvitað dómsmálaráðherrans fyrst og fremst.“

Minna moldviðri ef ekki hefði verið áfrýjað

Ragnhildur segir að dómurinn sem féll í gær sé mun skýrari en sá fyrri. „Þetta hefði auðvitað verið styttri tími og að sumi leyti minna moldviðri ef það hefði ekki gert það. Hins vegar er niðurstaðan skýrari og þetta er dómur þar sem settar er reglur sem verður hægt að fylgja í fullt af dómum.“