Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mikilvægt að vernda sjálfstæði dómstóla

Mynd með færslu
Bréfið var sent á síðasta degi Kjartans Bjarna Björgvinssonar sem setts umboðsmanns. Skúli Magnússon tók við 1. maí.  Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV - RÚV
Formaður Dómarafélags Íslands segir að niðurstaða Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu feli í sér skýr skilaboð um mikilvægi þess að vernda sjálfstæði dómstóla. Þetta kunni að hafa áhrif til framtíðar þegar upp komi vafamál varðandi skipan dómara.

 

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti í gær fyrri niðurstöðu í Landsréttarmálinu. Dómstóllinn kvað upp fyrri úrskurð sinn í mars í fyrra, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Landsréttur hefði verið ólöglega skipaður. Málinu var svo vísað til yfirdeildar að beiðni íslenskra stjórnvalda.

Kjartan Bjarni Björgvinsson formaður Dómarafélags Íslands segir að dómurinn byggi að mörgu leyti á íslenskum lögum og stjórnarskrárákvæðinu um sjálfstæði dómstóla og komi því ekki á óvart. Það sem sé nýtt í forsendum dómsins að hans mati sé sú krafa að betur verði tekið á því hér á landi hvernig staðið er að skipan dómara.

„Þá eru menn kannski ekki beinlínis að hugsa um þetta mál, heldur kannski mál þar sem er ljóst að stjórnvöld beita einhverjum bolabrögðum til að koma sínu fólki að. Þá hefur alltaf verið byggt hér, og ég tek það fram að það hefur ekki beinlínis reynt á skýr dæmi þess, en það hefur alltaf verið gengið út frá því hér að það sé ekki hægt að fá fólk dæmt úr starfi eða embætti sem þegar hefur verið skipað. Þetta er ekki regla sem byggir á lögum heldur einfaldlega dómvenju. Og miðað við forsendur dóms yfirdeildar Mannréttindadómstólsins þá kann að vera að dómstólar þurfi að endurskoða það að einhverju leyti,“ segir Kjartan.

Þetta sé mikilvægt til að tryggja sjálfstæði dómstóla.

 „En til framtíðar þá ættu hugsanlega íslenskir dómstólar að taka mið af þeim forsendum sem þarna koma fram og þegar reynir á gildi eins og sjálfstæði dómstóla þá sé einfaldlega ekki hægt að láta þar við sitja að þetta sé allt um garð gengið. Þetta hafi farið sína ferð í gegnum þing og forseti staðfest. Menn þurfi hugsanlega að skoða þetta eitthvað frekar og þá með það í huga að jafnvel þurfi þeir sem hafa verið settir eða skipaðir að víkja úr þeim embættum,“ segir Kjartan.