Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kallar eftir að broti í starfi fylgi afleiðingar

02.12.2020 - 21:05
Mynd: RÚV / RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata segir fyrrum dómsmálaráðherra hafa brotið alvarlega af sér í starfi og það hljóti að hafa afleiðingar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að niðurstaða dóms MDE snúa bæði að rannsóknarskyldu Sigríðar Andersen, en einnig að eftirlitshlutverki Alþingiss og Hæstarétti.

Áslaug Arna og Þórhildur Sunna voru gestir Kastljóss í kvöld. Píratar hafa sagt að niðurstaða MDE sé áfellisdómur á ráðherra Sjálfstæðisflokksins við skipan dómara.

„Já, og við spyrjum hvers vegna er mikilvægt að dómarar gangi ekki erinda stjórnmálamanna. Það er rauði þráðurinn í þessum dómi hvers vegna það skiptir máli að almenningur hafi ekki réttmætar áhyggjur af því að pólitísk sjónarmið eða annarleg sjónarmið hafi ráðið för við skipun dómara. Það er rauði þráðurinn að það hafi verið brotið á þessum rétti almennings til að treysta að dómararnir gangi ekki erinda annara en réttlætisins,“ segir Þórhildur Sunna. 

Hún segir réttaróvissu ríkja um mál þeirra sem hafa hlotið dóm hjá þeim dómurum sem skipunin nær til og hvernig eigi að meðhöndla skipan þeirra til framtíðar. Hún kallar eftir plani frá dómsmálaráðherra og stjórnvöldum til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

„MDE fer í gegnum það hvernig hver varðan á fætur annari féll í þessarri málsmeðferð, að Alþingi brást sínu eftirlitshlutverki, að dómstólarnir fóru ekki rétt með mat á því hvernig ætti að fara með lögmæti þessarra skipana fyrir dómi, en líka að ráðherra hafi brotið alvarlega af sér í starfi. Það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar að brjóta vísvitandi af sér í starfi þannig að það leiði til fordæmisgefandi dóms hjá MDE um hvernig eigi ekki að skipa dómara í lýðræðisríki. Það hlýtur að hafa afleiðingar aðrar en að vera færð yfir í utanríkismálanefnd í formennsku,“ segir Þórhildur Sunna.

 

Áslaug Arna segir niðurstöðu dómsins vera að framkvæmd skipunarinnar hafi verið í ólagi en  ekki hafi verið sett út á regluverkið. Áslaug var spurð að því hvort að hún væri með því að segja að ábyrgðin sé Sigríðar Andersen að hafa ekki farið eftir settum reglum og ekki rannsakað hæfni dómaranna fjögurra.

„Það eru allskonar athugasemdir í þessum dóm sem snúa bæði að þeirri rannsóknarskyldu Sigríðar, en líka að málsmeðferð Alþingiss, en ekki síst að Hæstarétti. Það er allt sem þarf að skoða og við tökum slíkum dóm alvarlega. En það hefur samt ekki afleiðingar fyrir þá dómþola sem fengu úrlausn sinna mála hjá Landsrétti.“ segir Áslaug Arna.

Áslaug var spurð að því hvort að niðurstaða dómsins sé áfellisdómur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ásakanir hafi komið fram um kunningjatengsl og þétt riðið hagsmunatengsl á milli dómara og stjórnmálamanna innan flokksins. Hún neitar því.

„Við höfum stjórnað dómsmálaráðuneytinu til lengri tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefur eins og aðrir flokkar átt þátt í því að byggja upp öflugt dómskerfi hér á landi. Sumum finnst að dómarar eigi að velja sína eftirmenn sjálfir. Aðrir telja eðlilegt að með valdi fariábyrgð og ákvörðunin. Ákvörðuninni þurfi að fylgja ábyrgð. Það er þannig sem erum við erum að reyna að finna jafnvægið á milli hæfisnefndarinar og ráðherrans sem fer með valdið og ábyrgðina. Því  við viljum heldur ekki hafa kerfi þar sem nefnd hefur þetta vald því hún ber ekki ábyrgð á neinu nema sjálfum sér.“ segir Áslaug.

 

Áslaug segir Sigríði hafa axlað ábyrgð með því að segja af sér embætti. Áslaug segir að ekkert óvenjulegt hafi átt sér stað við skipun dómara eftir að dómararnir fjórir hættu dómstörfum. Þrír þeirra hafa fengið skipun að nýju. 

„Fyrst þegar sæti losnaði þá sótti einn af þeim þrem um og fékk ekki. Þetta var ekki einhver leikur eins og háttvirtur þingmaður vill vera af láta. Svona pólitískir sleggjudómar eru ekki til þess að við náum einhverri réttarvissu um dómstólinn.“ segir Áslaug Arna.

Kastljósþátt kvöldsins má sjá í heild sinni hér að ofan.