Hvað gerðist hvenær í Landsréttarmálinu?

Yfirdeild Mannréttindadómstólsins hefur dæmt í Landsréttarmálinu.
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti í gær dóm dómstólsins í Landsréttarmálinu. Mannréttindadómstóllinn kvað upp úrskurð í mars í fyrra um að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði brotið lög með skipun dómara við Landsrétt. Í úrskurðinum fólst einnig að Guðmundur Andri Ástráðsson hefði ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti, og að ríkið væri bótaskylt. Sigríður Andersen sagði af sér embætti daginn eftir. En hver er forsagan og hvað gerðist hvenær?
 • 26. júní 2016
   

  Alþingi samþykkir að stofna millidómstig

  Alþingi samþykkir frumvarp Ólafar Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, um að stofnað verði nýtt millidómstig, Landsréttur. Undirbúningsnefnd um Landsrétt hafði skilað skýrslu árið 2014.

 • 19. maí 2017
   

  Hæfnisnefnd skilar áliti um skipun Landsréttardómara

  Dómnefnd um hæfni umsækjenda skilar áliti sínu um hæfustu umsækjendur um stöðu dómara við Landsrétt.

  Alls sóttu 37 um stöðurnar og fjórir drógu svo umsóknir sínar til baka. Á lista hæfnisnefndarinnar voru 15 nöfn:

  • Aðalsteinn E. Jónasson
  • Ástráður Haraldsson
  • Davíð Þór Björgvinsson
  • Eiríkur Jónsson
  • Hervör Þorvaldsdóttir
  • Ingveldur Einarsdóttir
  • Jóhannes Rúnar Jóhannsson
  • Jóhannes Sigurðsson
  • Jón Höskuldsson
  • Kristbjörg Stephensen
  • Oddný Mjöll Arnardóttir
  • Ragnheiður Harðardóttir
  • Sigurður Tómas Magnússon
  • Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
  • Þorgeir Ingi Njálsson

  Í lögum um dómstóla segir að dómnefnd skuli fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara, landsréttardómara og héraðsdómara. Ráðherra sé ekki heimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda en að frá því megi þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embættið.

 • 29. maí 2017
   

  Dómsmálaráðherra leggur fram tillögu fyrir Alþingi

  Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, afhendir forseta Alþingis, Unni Brá Konráðsdóttur, tillögu um skipun 15 dómara við Landsrétt. Þannig setur hún það í hendur Alþingis að samþykkja tillöguna. Á hennar lista eru:

  • Aðalsteinn E. Jónasson
  • Arnfríður Einarsdóttir
  • Ásmundur Helgason
  • Davíð Þór Björgvinsson
  • Hervör Lilja Þorvaldsdóttir
  • Ingveldur Einarsdóttir
  • Jóhannes Sigurðsson
  • Jón Finnbjörnsson
  • Kristbjörg Stephensen
  • Oddný Mjöll Arnardóttir
  • Ragnheiður Bragadóttir
  • Ragnheiður Harðardóttir
  • Sigurður Tómas Magnússon
  • Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
  • Þorgeir Ingi Njálsson

  Á skipunarlistanum höfðu því orðið þónokkrar breytingar:

  Af listanum duttu: Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Jón Höskuldsson.

  Á listann bættust við: Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadottir

 • 30.-31. maí 2017
   

  Þingið varað við tillögu ráðherra

  Þingið er varað við því í umsögnum að samþykkja tillögu dómsmálaráðherra. Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður varaði til dæmis við því að í uppsiglingu væri hneyksli sem yrði samfélaginu dýrt og myndi valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu. Hann minnti á að ráðherra væri bundinn af því að velja þá hæfustu: „Og samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar þarf hann að geta rökstutt að dómnefnd hafi í einstökum tilvikum farið villur vegar,“ sagði í umsögninni. Rökstuðningur ráðherra hafi engan veginn uppfyllt lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og ekki staðist efnislega skoðun.

 • 1. júní 2017
   

  Alþingi samþykkir tillögu ráðherra

  Alþingi samþykkir tillögu dómsmálaráðherra um dómara við Landsrétt með eins atkvæðis meirihluta.

 • 12.-14. júní 2017
   

  Ástráður og Jóhannes stefna ríkinu

  Ástráður Haraldsson (á myndinni) og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem báðir voru á lista hæfnisnefndarinnar en ekki á lista dómsmálaráðherra, höfða mál gegn ríkinu vegna skipunar Landsréttardómara.

 • 19. desember 2017
   

  Hæstiréttur: Ráðherra braut lög

  Hæstiréttur dæmir á þann veg að ráðherra hafi brotið lög með því að víkja frá listanum án þess að hafa rannsakað málið nægilega vel. Hæstiréttur kemst að sömu niðurstöðu um meðferð Alþingis á tillögum Sigríðar; að ekki hafi verið bætt úr „þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var talin haldin.” Ríkið er dæmt til að greiða Ástráði og Jóhannesi 700 þúsund krónur í miskabætur.

 • 22. janúar 2018
   

  Gögn sýna viðvaranir til ráðherra innan úr stjórnsýslunni

  Stundin birtir gögn sem sýna að sérfræðingar í dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu gerðu alvarlegar athugasemdir við rökstuðning Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um tillögu um skipun Landsréttardómara. Þeir höfðu bent henni ítrekað á að málsmeðferðin væri ekki í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga.

 •  
   

  Vilhjálmur krefst þess að dómari víki

 • 22. febrúar 2018
   

  Landsréttur hafnar kröfu um að dómari víki

  Landsréttur hafnar kröfu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns um að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Landsrétt, víki sæti í sakamáli gegn skjólstæðingi hans, Guðmundi Andra Ástráðssyni. Sá hafði verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í 17 mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir brot gegn umferðarlögum.

  Vilhjálmur taldi að Arnfríður væri vanhæf til að dæma í málinu þar sem hún hefði verið ein þeirra fjögurra umsækjenda sem dómsmálaráðherra gerði tillögu um þrátt fyrir að dómnefnd hefði ekki metið þá meðal fimmtán hæfustu umsækjendanna. Arnfríður og meðdómendur hennar mátu að hún væri ekki vanhæf og þyrfti því ekki að víkja. Guðmundur er dæmdur sekur í Landsrétti.

 • 8. mars 2018
   

  Hæstiréttur vísar frá sömu kröfu

  Hæstiréttur vísar frá kröfu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns um að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti vegna vanhæfis.

 • 24. maí 2018
   

  Hæstiréttur staðfestir dóm Landsréttar í máli Guðmundar Andra

  Hæstiréttur staðfestir dóm Landsréttar yfir Guðmundi Andra Ástráðssyni. Guðmundur Andri kærir málið í kjölfarið til Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim forsendum að ríkið hafi brotið gegn rétti hans til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Aðalatriðin í kæru Guðmundar til Mannréttindadómstóls Evrópu voru þau sömu og til Hæstaréttar.

 •  
   

  Málið til Strassborgar

 • 12. mars 2019
   

  Mannréttindadómstóll Evrópu: Ráðherra braut lög

  Mannréttindadómstóllinn tók málið fyrir og kvað upp úrskurð þann 12. mars 2019. Dómurinn var á þann veg að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði brotið lög með skipun dómara við Landsrétt. Hún hefði brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

  Í úrskurðinum fólst því að Guðmundur Andri Ástráðsson hefði ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti. Í dómnum segir um mál Guðmundar að alvarlegir annmarkar hafi verið á skipan eins landsréttardómara, sem dæmdi í máli kæranda, og að í þeim hafi falist gróft brot á landslögum sem gilda um skipan dómara.Landsréttur skellti samdægurs í lás og íslenska ríkið var dæmt til að greiða 15 þúsund evrur, rúmlega tvær milljónir íslenskra króna, í málskostnað.

  Að kvöldi sama dags sagðist Sigríður ósammála úrskurði Mannréttindadómstólsins. Hún sæi því ekki ástæðu til þess að segja af sér.

 • 13. mars 2019
   

  Sigríður Andersen segir af sér

  Sigríður segir af sér sem dómsmálaráðherra, daginn eftir að úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu er kveðinn upp. Stuttu síðar er greint frá því að stjórnvöld hafi ákveðið að áfrýja úrskurðinum til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu.

 • 9. september 2019
   

  Yfirdeild mannréttindadómstólsins ákveður að taka málið fyrir.

 • 1. desember 2020
   

  Yfirdeildin staðfestir dóminn

  Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfestir dóm Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu. Allir dómararnir sautján eru sammála um niðurstöðuna.

  Frétt RÚV um niðurstöðuna.

02.12.2020 - 16:59