Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Hótanir“ og „blekkingar“ – en ósammála um hvað gerðist

02.12.2020 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Halldór Janusson, fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar sem sat á þingi þegar atkvæðagreiðslan um tillögu Sigríðar Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, um dómara við Landsrétt fór fram, segir Sjálfstæðisflokkinn hafa hótað stjórnarslitum yrði tillagan ekki samþykkt. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, kannast ekki við hótanir en segir dómsmálaráðherra hafa blekkt þingið. Atkvæðagreiðslan fór fram þann 1. júní árið 2017.

„Þeim fannst þetta mjög óþægilegt mál“ 

Meirihlutinn hékk á einu atkvæði og Bjarni Halldór segist hafa séð eftir því að hafa greitt atkvæði með tillögunni strax á eftir. Hann segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi viljað klára málið eins hratt og auðið væri.

„Það var mjög harður kúltúr í kringum þetta. Maður veit það bara, það er mjög mikið lagt upp úr hlýðni í Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðismenn voru ekkert sérlega ánægðir með að það væri verið að gagnrýna þetta. Þau töluðu um að Jæja-hópurinn yrði mættur á Austurvöll fljótlega og vildu bara klára þetta mál sem fyrst, áður en þetta yrði eitthvað stærra. Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki vísa málinu frá var bara sú að þeim fannst þetta mjög óþægilegt mál og vildu bara rífa plásturinn af og láta þetta svo gleymast,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu.  

Hann segist sjálfur hafa verið mjög á móti því að samþykkja tillöguna. „Ég vildi samþykkja frávísunartillögu og skoða málið betur. Maður hafði séð sérfræðinga á borð við Björgu Thorarensen efast um að þetta stæðist stjórnsýslulög. Þótt þau gögn sem hafa komið fram núna hafi ekkert öll verið opinber, þá tel ég samt að það hafi verið nægar upplýsingar þá til að allavega efast um málið,“ segir hann.  

„Þetta var ekkert heilbrigt samstarf“ 

Hann segist hafa látið afstöðu sína skýrt í ljós við sinn þingflokk. Afstaða þingflokks Viðreisnar hafi verið sú að treysta Sjálfstæðisflokknum. „Þau höfðu unnið með þeim í ár og töldu sig geta treyst þeim. Svo vorum við þarna varamenn sem komum nýir inn og leist ekki alveg á þetta,“ segir hann. Þó hafi augljóslega farið um þingflokkinn þegar Sjálfstæðisflokkurinn var farinn að hóta stjórnarslitum. „Það virðist vera mjög algeng taktík hjá Sjálfstæðisflokknum að við minnstu mótspyrnu, að þá sé ríkisstjórnin sprungin. Þetta var ekkert heilbrigt samstarf,“ segir hann. 

„Og þá hugsaði ég: Hvað hef ég gert?“ 

Bjarni segist minnast þess að eftir atkvæðagreiðsluna, þar sem hann kaus með tillögunni, hafi einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins komið til hans, tekið í höndina á honum og þakkað honum sérstaklega fyrir. „Hann hafði greinilega vitað að ég væri einn af þeim sem væri á móti þessu. Þá fór ég strax að sjá eftir þessu og hugsaði: Hvað hef ég gert?,“ segir Bjarni og að hann hafi séð eftir því allar götur síðan að hafa látið undan þrýstingnum.  

Bjarni segist í kjölfarið hafa misst áhugann á þingmennsku. „Ég var bara 21 árs á þessum tíma, nýkominn á þing sem hefur verið draumur síðan í 10. bekk. Þarna fann ég að ég hafði ekki þroska til að takast á við þetta. Ef ég hefði haft kjarkinn hefði ég setið hjá og samþykkt frávísunartillöguna,“ segir hann. Hann hafi snúið sér að öðru og ekki séð fyrir sér að koma aftur inn á þing í bráð.  

„Dómsmálaráðherra blekkti alla“ 

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir kjarnann í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins vera alvarlegt brot dómsmálaráðherra sem hafði verið vöruð við því sem hún gerði. „Dómsmálaráðherra blekkti alla, af því að gagnvart þinginu og samstarfsflokkunum upplýsti hún ekki um þau varnarorð sem hún hafði fengið, heldur sagðist hafa uppfyllt allar sínar skyldur,“ segir hún. Þingið hafi líka gert mistök og beri ábyrgð á þeim.  

Þingið hafi lagt áherslu á að fá úr því skorið hvort ákvörðun dómsmálaráðherra væri í samræmi við ráðleggingar fagfólks. „En það er erfitt þegar samstarfsfólk og ráðherra fara fram með ósannindi og blekkingar,“ segir hún. Þótt þingið hafi vitað að tillaga ráðherra væri ekki sú sama og hæfnisnefndarinnar hafi þingið ekki haft forsendur til að vita að ákvörðun ráðherra væri þvert á allar ráðleggingar sérfræðinga innan stjórnsýslunnar. Dómsmálaráðherra hafi fullvissað þingið um að breytingarnar væru í samræmi við ráðleggingar embættismanna og að þær snerust fyrst og fremst um jafnréttissjónarmið.  

Viðreisn hafi talið eðlilegt að gera kröfu um jafnt kynjahlutfall. „En kynjasjónarmiðið leysti ráðherra auðvitað ekki frá rannsóknarskyldu sinni og því að fara eftir ráðleggingum embættismanna, og það að hún gerði það ekki er þungamiðjan í úrskurði Mannréttindadómstólsins,“ segir hún.  

„Og málið hvílir vissulega þungt á okkur. Það voru mistök að treysta Sigríði Andersen þegar hún sagði málið fullrannsakað og mér finnst mjög óþægilegt að heyra viðbrögð Sjálfstæðisflokksins sem keppist nú við að gera lítið úr Mannréttindadómstólnum og niðurstöðu hans,“ segir hún.  

En hörð gagnrýni lá fyrir 

Áður en þingið samþykkti tillöguna höfðu lögspekingar varað opinberlega við framgöngu ráðherra. Í umsögn um tillöguna varaði Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður til dæmis við því að í uppsiglingu væri hneyksli sem yrði samfélaginu dýrt og myndi valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu. Hann minnti á að ráðherra væri bundinn af því að velja þá hæfustu: „Og samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar þarf hann að geta rökstutt að dómnefnd hafi í einstökum tilvikum farið villur vegar,“ sagði í umsögninni. Rökstuðningur ráðherra hafi engan veginn upppfyllt lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og ekki staðist efnislega skoðun. Þar hafi ekki verið minnst á jafnréttissjónarmið. 

Aðspurð hvort þingflokkur Viðreisnar hafi ekki tekið þá gagnrýni alvarlega og hvort þau hafi látist blekkjast að óþörfu segir Hanna Katrín að vissulega hafi verið raddir með og á móti. „En síðan voru það allir þeir ráðgjafar, lögfræðingar, embættismenn ráðuneytisins, ráðuneytisstjóri og formaður hæfnisnefndar sem voru að vinna í málinu, og það kom ekki í ljós fyrr en eftir á að þeir höfðu varað hana við þessu. Og það er það sem hún hélt frá okkur. Hún fullvissaði okkur um að hún hefði fullan stuðning,“ segir Hanna Katrín. 

Pólitískt hitamál en man ekki eftir hótunum 

Hanna Katrín segir að málið hafi verið hitamál. „En eitt er pólitískur hiti og hitt er hvort það er verið að fara lögfræðilega rétt að. Og það er það sem við vorum allan tímann að reyna að fá fullvissu um að væri. Og fengum hana hjá þáverandi dómsmálaráðherra,“ segir hún. 

Hún segist ekki kannast við hótanir Sjálfstæðisflokksins um stjórnarslit ef málið færi ekki í gegn. „Það þýðir ekki að þau hafi ekki verið sögð en ég kannast ekki við það,“ segir hún. Hún segist ekki telja að ríkisstjórnarsamstarfið hafi verið óheilbrigt eða að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beitt of miklum þrýstingi. „Það var ekkert óheilbrigt við þetta stjórnarsamstarf og margt gott sem þessi stjórn áorkaði,“ segir hún. 

Verkefnið fram undan sé að koma í veg fyrir réttaróvissu og fylgja eftir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins, verja stjórnkerfið, dómskerfið og alþjóðlegar skuldbindingar. „Og stjórnvöld verða að hafa manndóm í sér til þess,“ segir hún.