Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Frásagnarvald safna

Mynd: - / Safnahúsið

Frásagnarvald safna

02.12.2020 - 12:57

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir rýnir í sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu og veltir fyrir sér frásagnarvaldi safna, en sýningin býður upp á mörg ólík sjónarhorn þegar kemur að lestri á sjónrænum menningararfi og sjálfsmyndum þjóðarinnar.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Ég fór á dögunum í ferðalag um íslenskan myndheim. Ferðalag sem tengir saman gripi úr ranni menningarminja, listminja og náttúruminja, þvert á efni, form og tíma. Þetta er sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sýningin er einstök í safna- og sýningarflóru landsins, en viðfangsefni hennar er sjónrænn arfur þjóðarinnar í víðri merkingu, og er hún unnin í samstarfi helstu lykilstofnana á sviði menningar- og náttúruarfs hér á landi: Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands. Sjálf sótt ég Safnahúsið síðast heim í eigin persónu fyrir um tveimur árum, og nú þegar við erum öll að skríða úr COVID-hýðinu fannst mér tilvalið að brúa bilið yfir í raunheima með því að skoða sýninguna með vefleiðsögn á heimasíðu Safnahússins. Ég mæli auðvitað frekar með físískri heimsókn fremur en vefleiðsögn, því það jafnast ekkert á við upplifun á safni þar sem finna má fyrir aðdráttarafli gripa og verða fyrir sjónrænum og líkamlegum áhrifum og óvæntum hugrenningatengslum.

Samstarf lykilstofnana

Fyrst verður að nefna að samstarf svo margra menningarstofnana er einstakt, en sýningin markaði tímamót í safnastarfi hér á landi þegar hún opnaði fyrir um fimm árum. Svo viðamikið samstarf er flókið í þróun og framkvæmd, og segjast verður að afar vel hafi tekist að miðla afrakstrinum á heildstæðan og áhugaverðan máta. Þar að auki heiðrar sýningin Safnahúsið sjálft á viðeigandi hátt, sem upphaflega var byggt til að varðveita og miðla menningarminjum, en það var opnað árið 1909 og er nú eitt eftirtektarverðasta hús borgarinnar. Á þessum upphafsárum hýsti það safnkost Landsbókasafnsins og Þjóðskjalasafnsins, en bæði Forngripasafnið, sem síðar varð Þjóðminjasafnið, og Náttúrugripasafnið fengu einnig inni í húsinu um tíma. Þetta er því merkilegt hús í sögu safnastarfs á Íslandi, sem annars telst vera fremur stutt í alþjóðlegu samhengi, en það var ekki fyrr en árið 1863 sem Forngripasafnið var stofnað. Fram að því höfðu íslenskir gripir einkum verið varðveittir í dönskum söfnum, og fyrstu árin eftir stofnun þess var safnkosturinn á flakki milli háalofta ýmissa opinberra bygginga, eins og Dómkirkjunnar, Tukthússins, Alþingishússins og Landsbankans, þangað til að fékk inni í risi Safnahússins. Við stofnun lýðveldisins árið 1944 ákvað Alþingi svo að reisa Þjóðminjasafninu eigið hús og flutti það í núverandi húsnæði við Suðurgötu stuttu síðar. Aðra sögu er hins vegar að segja af Náttúruminjasafninu, sem hefur um árabil verið á hrakhólum með sinn safnkost, án eigin safnbyggingar eða viðeigandi aðstöðu fyrir sýningarstarfsemi. Það er því kærkomið að fá að sjá í návígi valda gripi úr safneign Náttúruminjasafnsins á þessari sýningu í Safnahúsinu.

Flokkunarkerfi safna ögrað

Þegar gengið – eða hlustað – er í gegnum sýninguna má finna sterkt að hún er afrakstur mikillar og góðrar undirbúningsvinnu, og að vandað hefur verið til verka í hvívetna, hvort sem það lýtur að framsetningu og miðlun í sýningarsölunum sjálfum, textagerð, framsetningu á vef, útgáfu eða fræðsluefni. Hér má sjá forngripi, handverk, náttúruminjar, hönnunargripi, listaverk, handrit, landakort og skjöl af ýmsu tagi. Þessir gripir eru skoðaður með sjóngleri listasögunnar og hins fagurfræðilega, og þannig má sjá viðleitni til að endurskoða þrönga túlkun muna sem hingað til hefur ekki verið miðlað frá því sjónarhorni. Sýningin er sérstaklega athyglisverð fyrir þá staðreynd að hún ögrar hefðbundnu flokkakerfi safna, þar sem náttúrugripir eru venjulega hópaðir saman á náttúruminjasöfnum, listmunir á listasöfnum og menningarsöguminjar á þjóðminjasöfnum, byggðasöfnum eða skjalasöfnum. Það er því afar frískandi að sjá gripi úr óvæntum áttum sýnda saman hlið við hlið, klókt sýningarbragð sem brýtur upp hefðbundinn lestur á sögunni og býr til ný vensl milli hluta sem við fyrstu sýn virðast óskyldir. Þannig eru til dæmis landakort frá 18. öld, uppstoppuð dýr og samtímalist sett saman í rými, sem opnar annars konar lestur en ella hefði orðið ef hver gripur fyrir sig væri skoðaður í hinu hefðbundna aðgreiningarkerfi safna. Þá fellur hönnun sýningarinnar fullkomlega að þessu markmiði og minnir á furðustofur endurreisnarinnar (e. cabinets of curiosity), þar sem ólíkum gripum ægði saman og ekki var gerður stigveldismunur á þeim eftir því hvaða flokkunarkerfi þeir tilheyrðu.

Ólík sjónarhorn

Sýningarstjórnun Sjónarhorns er í höndum Markúsar Þórs Andréssonar, sem er einn af reyndustu og færustu sýningarstjórum í íslenskri myndlistarsenu. Markús fer þá leið að brjóta þessa risavöxnu sýningu niður í sjö áhugaverð og ígrunduð sjónarhorn, sem hvert og eitt hjálpar áhorfandanum að innbyrða það gífurlega magn upplýsinga og gripa sem prýða sýninguna. Sjónarhornin sjö kallast „upp“, „aftur og aftur“, „spegillinn“, „inn“, „út“, „frá vöggu til grafar“ og „niður“, og vísa þannig til afhafnarinnar að horfa, hvort sem það er að horfa á verkin sjálf, spegla sig í þeim, eða horfa inn á við. Hvert sjónarhorn hefur sitt viðfangsefni, eins og til dæmis samband manns og náttúru, sköpun og þróun þjóðarsjálfsmynda, trúarlegt og veraldlegt vald, eða þekkingarframleiðsla og vísindi. Þessi nálgun hvetur áhorfandann til að velja sér sitt sjónarhorn um leið og honum er ljóst að ekki er til neitt eitt réttmætt sjónahorn á menningararfinn. Þannig færir sýningin okkur verkfæri í hendur, nýjar víddir og viðmið þar sem annars konar lestri á sögunni er beitt þannig að nýr skilningur og ný túlkun verður til á þjóðargersemum, sem annars myndu ef til vill liggja óséðar í geymslum samstarfsstofnananna. Þótt sýningin sé svokölluð fastasýning, sem þýðir að hún breytist lítið sem ekkert milli ára, þá er svokölluðum kjörgripum skipt út með reglulegum hætti. Núverandi kjörgripur er Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen, og fer vel á því að velja þessa klassísku höggmynd nú sem kjörgrip þar sem 250 ára afmæli Thorvaldsens var fagnað með veglegri dagskrá í Listasafni Íslands fyrir stuttu. Þannig er gerð tilraun til að tengja sýninguna samtímanum hverju sinni og gefa safngestum tilefni til að endurheimsækja hana aftur og aftur.

Hugarfylgsni ímyndunaraflsins

Ef ég ætti að taka út einn grip sem vakti sérstaka athygli mína á sýningunni, þá væri það sennilega altarisdúkur eftir óþekkta handverkskonu eða -karl frá 17. öld. Gripurinn er staðsettur í sjónarhorninu „inn“, sem á að endurspegla óhlutbundinn táknheim hins ímyndaða, það sem við sjáum hvergi annars staðar með berum augum. Dúkurinn er í eigu Þjóðminjasafnsins og er einn örfárra muna sem sagðir eru verk huldufólks, og er gripurinn kallaður Álfkonudúkur frá Bustarfelli. Hann hefur yfir sér dulúðlega áru og býr yfir sterku aðdráttarafli þannig að maður dregst einhvern veginn ósjálfrátt að honum. Hann er úr gulu vaðmáli með ásaumuðum blómum og blöðum úr dökku flaueli sem eru útsaumuð með vírþræði, auk þess sem ævintýralegar og skrautlegar konur sjást með sítt og mikið hár, spilandi á hörpu eða haldandi á fjöðrum. Í ítartexta vefleiðsagnarinnar stendur: „Sú þjóðsaga fylgir klæðinu að sýslumannskona á Bustarfelli hafi í draumi verið leidd inn í stein þar sem bjuggu álfar. Þar kom hún til hjálpar fæðandi álfkonu, sem launaði fyrir sig með fínum gullofnum vef eða klæði. Klæðið er haganlega gert, framandi og einsdæmi hér á landi. Í Noregi eru hins vegar tvö klæði sem greinilega eru af sama toga þótt þau séu innbyrðis talsvert ólík. Í þau bæði eru saumuð ártöl, 1687 og 1688, og talið að þau hafi upphaflega verið gerð sem borðdúkar þótt þau síðar tengdust bæði kirkjum. Giskað hefur verið á að klæðin hafi saumað flinkar konur eða karlar í Noregi sem fengust við saumaskap því hvergi eru þekkt verkstæði þar sem slík klæði voru unnin, jafnvel þótt leitað sé suður í Evrópu. Spurningunni um tilurð klæðisins frá Bustarfelli er því ósvarað.“ Á sýningunni er álfkonudúkurinn settur í samhengi við aðra handverksmuni og gripi, sem leiða áhorfandann inn á við, inn í hugarfylgsni drauma og ímyndunarafls, gripi eins og galdrakver, myndir af kynjaverum og skrímslum, eða eitt stykki náhvalstönn.

Samtal við sögu og hlutverk safna

Sýningin Sjónarhorn er dæmi um safnastarf þar sem safnkosturinn sjálfur er notaður sem rannsóknartæki til að skoða rannsóknarviðfangsefni, sem í þessu tilfelli er sjálfsmyndir og saga þjóðar, og aðferðin er sýningarstjórnunin eða sýningargerðin sjálf. Útkoman er mörg sjónarhorn, sem opin eru fyrir túlkun og endursköpun. Um leið á sýningin í áhugaverðu samtali við sögu og hlutverk safna í samtímanum, nokkuð sem gerir áhorfandann meðvitaðan um vald safnastofnana til að hafa áhrif á frásögnina um sjálfsímyndir þjóða og miðlunina þar á, það er hvernig við segjum okkur sjálfum söguna af því hver við erum.