Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekki tímabært að slaka á sóttvörnum í næstu viku

Mynd: Háskóli Íslands / Háskóli Íslands
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, telur að í ljósi aðstæðna nú sé ekki tímabært að slaka á sóttvarnakröfum eftir viku þegar gildistími núverandi reglna er liðinn. Útlit sé fyrir að fjöldi smita verði svipaður fram í miðjan desember og smitum gæti svo farið fækkandi fram að jólum

Það bjuggust margir við að í dag tækju nýjar reglur um sóttvarnir gildi. Heilbrigðisráðherra ákvað hins vegar í gær að framlengja gildistíma þeirra reglna sem gilt hafa frá 18. október um eina viku. Þórólfur Guðnason hafði skilað minnisblaði 25. nóvember til ráðherra sem gerði ráð fyrir ýmsum tilslökunum. Fólk gæti farið aftur í sund, lagðar voru til breytingar á fjöldatakmörkunum bæði í verslunum öðrum en matvöruverslunum og á veitingastöðum og það átti að slaka á í íþróttum og í leikhúsum. Ekkert varð hins vegar af þessu.  

Ástandið breyttist og smitum fjölgaði. Sóttvarnalæknir sem hafði skilað minnisblaðinu með fyrirvara, dró það til baka. Á mánudaginn skilaði hann öðru minnisblaði þar sem kvað við allt annan tón. Lagt var til að þágildandi reglur myndu gilda áfram næstu tvær vikurnar. Fjöldi smita hefur verið svipaður síðustu daga. Í fyrradag voru innanlandssmit 18 og þar af 7 utan sóttkvíar, í gær voru þau 16 og 5 ekki í sóttkví. En það eru eflaust margir sem velta því fyrir sér hvað gerist á miðvikudaginn þegar gildistími núgildandi reglna rennur út.  Verður þá hægt að slaka á? Þessu er að sjálfsögðu ekki hægt að svara því enginn veit hvernig veiran mun hegða sér næstu 7 daga.

Að smit verði undir 5 í 14 daga

Norðmenn settu okkur á rauðan lista þegar nýgengi smita hér á landi fór yfir 20. Það er núna tæplega 43. Sóttvarnalæknir boðaði tilslakanir þegar dagleg smit voru komin niður í 3 til 4. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir að til að komast á grænt og slaka á sóttvörnum sé miðað við að smit verði undir fimm í 14 daga. 

„Það hefur kannski ekki komið fram einhver ein tala. Þarna erum við að horfa á það sem Evrópusambandið miðar við að vera á grænum lista, undir 20 í 14 daga nýgengi,“ segir Thor.

Smtin svipuð fram í miðjan desember

Þegar nýtt spálíkan um útbreiðslu veirunnar var birt á föstudaginn í síðustu viku var það mat manna að það myndi skýrast í seinni hluta þessarar viku hvort okkur hefði tekist að ná tökum á núverandi bylgju faraldursins eða hvort ný bylgja væri komin af stað. Thor segir að þá hafi verið settir fram tveir möguleikar.

„Annars vegar að það yrði viðsnúningur vegna þess að fólk tæki við sér, að það myndi hægja á, og hins vegar að það myndi bara halda áfram með svipaðri dreifingu. Ekki endilega að aukast en með svipaðri dreifingu. Það var þá ávísun á veldisvöxt að smitstuðullin héldist yfir einum. Þá gæti fjöldinn mögulega aukist hratt. En það sem virðist vera að gerast er hinn möguleikinn að virknin í þjóðfélaginu sé einhvern veginn að fara niður og að smitstuðullinn sé á leið niður. Þannig að fjöldinn haldist svipaður eitthvað inn í miðjan desember og gæti svo farið lækkandi fram að jólum. Núna virðist það frekar vera að gerast. Við ætlum ekki að setja fram nýja spá heldur sjá hvernig tölurnar þróast í takt við þessa tvo möguleika sem við settum fram síðast,“ segir Thor.

Talsverð óvissa

Hann segir að ekki sé brostinn á veldisvöxtur í fjölda smita. Margir séu að greinast í sóttkví og það fólk smiti ekki út fá sér. Það skipti miklu máli til að hemja veldisvöxtinn. Sumir óttuðust að ný bylgja væri að breiðast út en Thor segir að það sé ekki endilega í spilunum nú.

„En ég minni bara á óvissuna sem er í þessu. Það er alveg hægt að segja að hún er talsvert mikil. Rúmar talsverðar smittölur því miður. Þannig virkar þessi hegðun. “

En óvissan er talsvert mikil. Miklu meiri en hún var í fyrstu bylgjunni. Flökt á smitum sé núna mikið og auðveldara hafi verið að spá í fyrstu bylgjunni.

Tvisvar tíu gesti yfir hátíðirnar

Fólk út um allan heim veltir nú fyrir sér hvernig jólahaldið verður, að minnsta kosti þar sem jól eru haldin. Almannavarnir hafa gefið út leiðbeiningar hvernig best er að haga jólaboðum. Ekki hefur þó komið skýrt fram hvort miða eigi við að ekki verði fleiri en 10 í hverju boði. Norðmenn hafa áhyggjur af jólaversluninni og jólaboðunum. Erna Solberg, forsætisráðherra kynnti í dag nýjar reglur og tilmæli. Lagt er til að fólk vakni snemma til að kaupa inn fyrir jólin og losni þannig við að standa í röð. Eins metra regla gildir í Noregi. Hún gildir líka í jólaboðunum og þegar kemur að því að opna gjafirnar. Einnig er mælst til þess að fólk taki ekki á móti fleiri gestum en fimm í einu fram yfir áramót - en þó með tveimur undantekningum. 
  
„Við opnum fyrir það að að tvo daga verði heimilt að fá allt að tíu gesti, til dæmis á aðfangadag eða  á gamlárskvöld,“ sagði Erna Solberg.

epa08408525 Norway's Prime Minister Erna Solberg speaks during the Government's press conference on reopening society after the coronavirus (Covid-19) situation in Oslo, Norway, 07 May 2020.  EPA-EFE/Fredrik Hagen  NORWAY OUT
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
Erna Solberg

Tilslakanir ekki tímabærar

En hér heima gilda sóttvarnarreglurnar til 9. desember. Spurningin er hvort þá sé kominn tími tilslakana. Thor Aspelund er ekki sóttvarnalæknir en hvert er álit hans?  Eru líkur á að hægt verði í ljósi stöðunnar að létta á takmörkunum? 

„Stutta svarið er bara nei. Ég held ekki. Ég held að það þurfi að sjá þetta fara niður undir töluna fimm sem við erum alla vega að miða við. Ef ég væri að stjórna, en ég er náttúrulega ekki að því, þá myndi ég halda að það væri ekki tímabært,“ segir Thor Aspelund.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV