Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bólusetning gæti hafist á Íslandi strax í byrjun árs

epa08814067 An undated handout picture made available by the German pharmaceutical company Biontec shows the dosing of BNT162b2, the mRNA-based vaccine candidate against COVID-19, during the clinical test. Pfizer and Biontech SE  announced on 11 November 2020 that they have reached an agreement with the European Commission to supply 200 million doses of their investigational BNT162b2 mRNA-based vaccine candidate against COVID-19 to European Union (EU) Member States, with an option for the European Commission to request an additional 100 million doses.  EPA-EFE/BIONTECH SE / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Bólusetning með bóluefni BioNTech og Pfizer gæti hafist strax í byrjun næsta árs. Lyfjastofnun Evrópu er nú að meta öll gögn sem hafa borist í umsókn Pfizer um skilyrt markaðsleyfi. Staðfesti gögnin ásættanleg gæði, öryggi og virkni bóluefna mun sérfræðinganefnd stofnunarinnar ljúka mati sínu í síðasta lagi fyrir 29. desember. Aðeins nokkrum dögum seinna daga myndi framkvæmdastjórn ESB gefa út leyfi og mjög fljótlega eftir það yrðu fyrstu skammtarnir fluttir til landsins með flugi.

„Þetta eru þær tímalínur sem við erum að vinna með,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.  Ef allt er klárt og öll leyfi komin ætti ekkert að vera því til vanbúnaðar að flytja bóluefnið til landsins og hefja bólusetningu. 

Þeir sem fréttastofa ræddi við í dag sögðu þetta spennandi tíma en rétt væri líka að halda væntingum í lágmarki. Alltaf væri eitthvað sem gæti komið uppá sem myndi seinka þessu ferli. 

Til marks um það hversu snöggt þetta gerist eftir að leyfi er komið þá veittu Bretar Pfizer-bóluefninu leyfi í dag. Þeir fá 800 þúsund skammta í fyrstu sendingu og ætla að hefja bólusetningu strax í næstu viku.

Þar verður bólusett á sjúkrahúsum þar sem þau geta geymt bóluefnið við sjötíu gráðu frost. „Alveg síðan COVID-19 fór að herja á mannkynið höfum við vonast til að vísindamenn gætu fundið svarið við farsóttinni. Þeim hefur nú tekist það,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra á fréttamannafundi í dag.

Þar, líkt og hér, verður bólusett eftir sérstakri forgangsröðun. Tíu hópar fá forgang í bólusetningu hérá landi, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra. Þar eru í mestu forgangi heilbrigðisstarfsfólk og svo íbúar hjúkrunar-og dvalarheimila og öldrunardeilda sjúkrahúsa.

Johnson forsætisráðherra varaði við því á fréttamannafundinum í dag að bólusetningu allrar bresku þjóðarinnar yrði ekki lokið fyrr en í vor. Því yrði áfram mikilvægt að halda faraldrinum í skefjum.  

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu liggur ekki fyrir hversu marga skammta Ísland fær í fyrstu sendingu.   Svíar sjá um dreifingu bóluefnsins og á vef NRK er haft eftir Richard Bergström, sem hefur umsjón með verkefninu, að Norðmenn þurfi að vera undirbúnir að fá nokkur hundruð þúsund skammta strax í janúar og 2,5 milljónir skammta á fyrsta ársfjórðungi. 

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica sem flytur bóluefni Pfizer til landsins, segir að innflutningurinn sé bara flug til Íslands og fyrirtækið sé tilbúið þegar kallið kemur. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er bóluefnið staðsett í Evrópu.

Á vef Lyfjastofnunar kemur fram að lyfjafyrirtækið Moderna sé einnig búið að sækja um skilyrt markaðsleyfi og að stefnt sé að niðurstöðu sérfræðinganefndarinnar í síðasta lagi fyrir 12. janúar.  Það er því hugsanlegt að tvö bóluefni verði til reiðu um miðjan næsta mánuð, gangi allt að óskum.

Moderna er ekki með neinn samstarfsaðila á Íslandi en Júlía Rós segir að þau hafi áður flutt inn lyf fyrir fyrirtæki sem eru ekki með markaðsleyfi á Íslandi og því ekkert til fyrirstöðu að þau geri það aftur.

Bóluefni Pfizer og BioNTech er það hraðasta sem hefur verið þróað. Það er komið á markað tíu mánuðum eftir að vinna við það hófst en vanalega tekur þróun bóluefnis 10 ár.

Árangurinn má meðal annars rekja til reynslu fyrirtækisins af bóluefnaframleiðslu og þeirrar staðreyndar að nú er faraldur bráðsmitandi veiru í gangi og því mikið um sýkta einstaklinga. Það hefur því reynst auðveldara en oft áður að prófa bóluefnið. Talið er að virkni þess sé um það bil 94 prósent.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV