Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Björgunarsveitir í startholunum

02.12.2020 - 22:00
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir hafa í kvöld þurft að aðstoða ökumenn nokkurra bíla sem lent hafa í vandræðum vegna slæmrar færðar og veðurs, bæði á Norður- og Austurlandi.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingarfulltrúa Landsbjargar, er björgunarsveitarfólk um land allt í startholunum og tilbúnar að svara kallinu ef á reynir. Gul viðvörun er í gildi um allt land og appelsínugul viðvörun er á Suðausturlandi. Veður er farið að versna og ekkert ferðaveður. Er fólk hvatt til að fara með gát.

Björgunarsveitafólk hefur mestar áhyggjur af höfnum norðanlands og biðla til eigenda báta og verðmæta í höfnum að huga vel að frágangi fyrir nóttina.  

Gert er ráð fyrir að veðrið verði slæmt fram eftir kvöldi og til morguns.  Norðan hvassviðri eða stormur er í öllum landshlutum nema á Austfjörðum, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Mjög er farið að kólna og búast má við miklu kuldakasti næstu daga. Neyðarskýli fyrir heimilislausa verða því opin allan sólahringinn frá morgundeginum og fram á mánudag. Þá hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun og hvetja fólk til að fara sparlega með heita vatnið.  Verði of mikið heitt vatn notað gæti komið til skömmtunar.