Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bakvörðurinn á Vestfjörðum ekki ákærður

02.12.2020 - 12:12
Myndir teknar með dróna.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Kona, sem var grunuð um að hafa villt á sér heimildir þegar hún starfaði sem bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík, verður ekki ákærð. Þetta staðfestir embætti héraðssaksóknara í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur verið upplýstur um niðurstöðuna. Jón Bjarni Kristjánsson, lögmaður konunnar, vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir viðbrögðum hans.

Konan var handtekin að morgni dags 10. apríl. Í tilkynningu kom fram að hún væri grunuð um að hafa falsað skjöl um mentun og starfsleyfi sín sem sjúkraliði.

Ábendingar höfðu þá borist um að ekki væri allt með felldu og var haft eftir Gylfa Ólafssyni, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, að ákveðið hefði verið að grípa strax til aðgerða.

Fram kom í fréttum RÚV að það hefði verið sjálfsmynd sem konan birti á samfélagsmiðlum sem varð til þess að  fólk í Reykjavík sem þekkti til hennar hringdi vestur. Var hún í framhaldinu handtekin, yfirheyrð og gert að sæta einangrun vegna gruns um að hún hefði verið útsett fyrir smiti.

Konan hafði komið vestur í hópi bakvarða nokkrum dögum fyrr til að létta undiir með starfsfólki á hjúkrunarheimilinu í Bolungarvík. Það var þá að stórum hluta komið í sóttkví eftir að COVID-19 smit hafði komið þar upp og búið að vinna langar vaktir.