Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Alþingi taki niðurstöðu MDE alvarlega

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Forseti Alþingis segir að Alþingi hljóti að taka alvarlega til sín þá gagnrýni sem kemur fram í niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um hvernig staðið var að atkvæðagreiðslunni um skipan dómara í Landsrétt á sínum tíma.

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti í gær fyrri niðurstöðu dómstólsins í Landsréttarmálinu.

Dómstóllinn kvað upp upprunarlegan úrskurð sinn í mars í fyrra, þar sem hann dæmdi íslenska ríkið bótaskylt og að Landsréttur hafi verið ólöglega skipaður.

Allir 17 dómarar yfirdeildarinnar voru sammála um að íslenska ríkið hafi brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmálans sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar.

Atkvæðagreiðsla Alþingis um skipan dómara í Landsrétt er sérstaklega gagnrýnd í niðurstöðu dómstólsins. Sigríður Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra ákvað að skipa 15 dómara við Landsrétt þar af fjóra sem ekki voru meðal þeirra 15 hæfustu samkvæmt niðurstöðu dómnefndar. Alþingi greiddi atkvæði um listann í heild sinni í stað þess að greiða atkvæði um hvern og einn.

„Yfirdeildin gerir að sínu að hluta til athugasemdir Hæstaréttar við fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar. En bætir kannski í að Alþingi hefði líka getað staðið sig betur í því að krefja um ítarlegan rökstuðning. Það er hlutur sem við hljótum að taka til okkar og skoða alvarlega. En vissulega segir líka í reifun dómsins að þessi misbrestur af hálfu Alþingis hefði einn og sér ekki leitt til þess að dómurinn í heild teldist ekki löglega skipaður. Þannig að þetta er svona athugasemd sem við fáum þarna en hún er þó ekki talin það veigamikil að það eitt og sér hefði sett málið út af sporinu. Enga að síður er þetta sagt og við skoðum það og reynum að tryggja að ekkert slíkt geti gerst aftur. En reyndar er hérna á ferðinni ákvæði til bráðabirgða um það tilvik þegar ráðherra í fyrsta sinn ber undir Alþingi tillögu sína um skipan í Landsrétt. Þetta var sérstakt bráðabirgðaákvæði sem sett var um það þegar rétturinn var skipaður í fyrsta sinn í heild. Það á ekki við um framtíðina en enga að síður þá tökum við þetta alvarlega og skoðum þetta,“ segir Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Steingrímur segir að vissulega hefði verið hægt að fara aðra leið í atkvæðagreiðslu um tillögu ráðherra.

„Það má jafnvel lesa í þetta þannig að Alþingi hefði getað greitt atkvæði um þessa ellefu sem voru samkvæmt niðurstöðu hæfisnefndar saman en hefði þá átt að greiða atkvæði sérstaklega um hvern og einn hinna fjögurra. Það er ein möguleg túlkun á þessu. En það skiptir nú ekki öllu máli af því að þetta er búið og gert. Þetta er liðið atvik og byggir á þessu ákvæði til bráðabirgða um tilnefningar í réttinn í fyrsta sinn og mun ekki sem slíkt eiga við í framtíðinni,“ segir Steingrímur.

Hann lítur ekki svo á að niðurstaða Mannréttindadómstólsins feli í sér áfellisdóm yfir störfum Alþingis.

„Nei ég tel það nú ekki vera. Ekki alvarlegan. En það er auðvitað miður að þetta skyldi blandast inn í þetta með þessum hætti. En mér finnst þó gott að þessi orð eru þarna að þessi misbrestur einn og sér hefði ekki leitt til þess að rétturinn teldist ekki löglega skipaður, ef ekkert annað hefði verið að í öllu ferlinu,“ segir Steingrímur.