Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Yfirdeildin staðfestir dóm MDE í Landsréttarmálinu

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti dóm MDE í Landsréttarmálinu. Úrskurðurinn var birtur á vefsíðu MDE klukkan rúmlega 10 í morgun að íslenskum tíma. Allir 17 dómarar deildarinnar voru sammála um niðurstöðuna í grundvallaratriðum.

Dómstóllinn kvað upp upprunarlegan úrskurð sinn í mars í fyrra, þar sem hann dæmdi íslenska ríkið bótaskylt og að Landsréttur hafi verið ólöglega skipaður. Þá var úrskurðað að Guðmundur Andri Ástráðsson hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti. Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, sem skipaði dómarana í Landsrétt, sagði af sér embætti eftir að dómurinn féll, 12. mars 2019.

Nánar tiltekið var brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Íslenska ríkið var dæmt til að greiða 15 þúsund evrur, rúmlega tvær milljónir íslenskra króna, í málskostnað. Þær reglur sem voru brotnar með ráðningum dómaranna höfðu þannig áhrif á allt ferlið sem og réttarhaldið. 

 

Hér má nálgast úrskurð yfirdeildar MDE um úrskurðinn á ensku sem var birtur rétt í þessu.