Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tólf sambærileg mál bíða Mannréttindadómstólsins

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Dómur yfirdeildar Mannréttindadómstólsins í máli gegn íslenska ríkinu er tímamótadómur, segir lögmaður manns sem höfðaði málið. Dómstóllinn hafi slegið skjaldborg um sjálfstætt dómsvald í Evrópu. Ráðamenn Evrópuþjóða hljóti nú að hugsa sig um tvisvar áður en þeir vegi að sjálfstæði dómstóla. Tólf sambærileg mál bíða afgreiðslu dómstólsins.

„Ég tel að þetta sé tímamótadómur ekki bara fyrir okkur heldur fyrir Evrópu. Ég treysti því að stjórnvöld og ráðamenn Evrópuþjóða að þeir hugsi sig nú tvisvar um áður en þeir fara að vega að sjálfstæði dómsvaldsins. Ég tel að þessi dómur Mannréttindadómstólsins hafi slegið skjaldborg um sjálfstætt dómsvald í Evrópu,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður.

Sigríður Andersen sem var dómsmálaráðherra þegar þetta allt fór af stað, hefur túlkað þetta meira á þann veg að með þessu sé dómstóllinn að senda skilaboð til ýmissa Austur-Evrópuríkja, Ungverjalands, Póllands. Fordæmið eigi við þar en ekki hér. En á fordæmið heima hér líka?

„Já, að sjálfsögðu. Ef Sigríður Andersen heldur þessu fram þá hefur hún hreinlega ekki lesið dóminn,“ segir Vilhjálmur.

Ertu með fleiri mál sem hafa beðið meðan þetta fór í gegn?

„Já, ég er með 12 önnur mál sem bíða afgreiðslu hjá dómstólnum. Ég reikna með því að það fari að gerast eitthvað í þeim málum núna þegar þessi dómur er fallinn,“ segir Vilhjálmur.

Má gera ráð fyrir að þau fari hraðar í gegn nú þegar þetta fordæmi er komið?

„Já, ég reikna með því. Þau eru efnislega samhljóða. Svo er það auðvitað stóra spurningin hvað íslenska ríkið ætlar að gera. Boltinn er hjá því,“ segir Vilhjálmur.