Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þrír dómarar Gettu betur öll í sama bekk í MR

Mynd með færslu
 Mynd: - - Aðsend

Þrír dómarar Gettu betur öll í sama bekk í MR

01.12.2020 - 09:00

Höfundar

Jóhann Alfreð Kristinsson, sem nýverið tók við embætti dómara og spurningahöfundar í Gettu betur ásamt Laufeyju Haraldsdóttur, var bekkjarfélagi Margrétar Erlu Maack og Atla Steinþórssonar í MR. Þau hafa einnig hafa setið í dómarasæti í keppninni.

Atli var dómari 2013 ásamt Þórhildi Ólafsdóttur og Margrét Erla Maack var dómari 2014-15 ásamt Steinþóri Helga Arnsteinssyni. Nú hefur Jóhann Alfreð vinur þeirra og fyrrum bekkjarfélagi tekið við keflinu.

Þau voru í fornmáladeildarbekknum 6.A og útskrifuðust árið 2004. Í samtali við menningarvef RÚV lýsir Margrét bekknum sem skrautlegum og eldklárum. Hún minnist sérstaklega þess hve gaman það var að dimmitera, eða fagna skólalokum, með bekkjarsystkinunum. Allir árgangar klæddu sig upp í búning að gömlum sið og skemmtu sér á túninu fyrir framan skólann. Latínugránarnir í fornmáladeild dulbjuggu sig sem rússneska kommúnista og sungu Nallann á rússnesku með kröfuspjöld á lofti fyrir skólafélaga og kennara. „Læknabekkirnir borguðu marga þúsundkalla fyrir búninga, en við? Fimmhundruð kall fyrir flögg og skilti,“ segir Margrét stolt.

Og dagurinn var viðburðaríkur. „Okkur var boðið í kaffi á skrifstofu Framsóknarflokksins,“ rifjar Margrét upp. „Jónína Bjartmarz var á meðal þeirra sem tók á móti kommunum syngjandi og bauð þeim upp á kaffi. Hún var nýkomin frá Rússlandi og bað okkur að þýða einhver plaköt. Atli Freyr bullaði í henni og við fengum kleinur og kaffi.“

Mynd með færslu
 Mynd: - - Aðsend
Margrét, Atli og Jóhann Alfreð með stúdentshúfurnar

Keppnin í ár með nýjum dómurum hefst strax á nýju ári. Fyrri umferð keppninnar verður streymt á vef RÚV 4.-7. janúar. Sjónvarpshluti keppninnar hefst á RÚV föstudaginn 5. febrúar.

Kristjana Arnarsdóttir verður spyrill og Sævar Helgi Bragason liðsinnir spurningahöfundum í ár líkt og fyrri ár. Handhafi Hljóðnemans, farandgrips keppninnar, er lið Menntaskólans í Reykjavík sem vann lið Borgarholtsskóla síðastliðinn vetur.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Fyrrum sigurvegari nýr spurningahöfundur og dómari