Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stafafuran kemur sterk inn þegar velja á jólatré

01.12.2020 - 17:03
Þótt plastjólatré séu alltaf vinsæl segir skógarbóndi stafafuruna verða sífellt vinsælli hjá Íslendingum þegar velja á jólatré í stofuna.

Aðventan er gengin í garð og flestir byrjaðir eða búnir að skreyta fyrir jólin. Jólatrjáavertíðin er þá þegar hafin hjá skógarbændum.

„Hún byrjar svona í lok nóvember og fram í desember fer maður hérna og röltir um skóginn og reynir að finna tré sem eru falleg í vextinum og gallalítil. Sem eru náttúrulega ekki alveg öll trén hérna þannig þetta er svolítil leit, getur verið það,“ segir Þórarinn Svavarsson, skógarbóndi á Tungufelli í Lundareykjadal.

Bestu jólatrén segir Þórarinn vera jöfn og þétt í vexti og ekki síður falleg á litinn. Hann ræktar stafafuru sem yfirleitt hefur vaxið í góða stærð um tíu ára aldur. 

„Við byrjuðum á að planta 2002, þetta er átján ára gamall skógur og orðinn kannski í það mest vaxinn hérna. Stór tré.“

Trén keyrir Þórarinn heim til fólks, en býður því líka að fella sjálft. Ýmis ráð eru til um hvernig skal hugsa um trén. 

„Það eru nú margar kenningar um það, allt frá því að saga endann af og sjóða hann, en stafafuran er bara þannig að það þarf eiginlega ekkert að hugsa um hana. Vökva hana, það er betra, en allt í lagi þótt maður sleppi því.“

Hann leggur áherslu á að verða sér tímalega úti um jólatré. Hvað vinsældir ólíkra tegunda varðar, séu íslensk jólatré alltaf að verða meira áberandi á markaðnum. 

„Mér finnst fólk vera meira og meira að kaupa stafafuruna. Þótt að plastið sé alltaf vinsælt líka, en stafafuran er að koma sterk inn.“