Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skoða svæðisbundnar sóttvarnaaðgerðir

01.12.2020 - 12:44
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Svandís Svavarsdóttir segir að það komi til greina að ráðast í ólíkar sóttvarnaaðgerðir milli landshluta. Núgildandi reglugerð um samkomutakmarkanir hefur verið framlengd til 9. desember og þangað til verða engar breytingar á sóttvarnaaðgerðum.

„Svo vorum við að skoða dreifingu smita á landsvísu og við höfum rætt að það kunni að koma til greina að ráðast í misharðar aðgerðir milli landshluta. Við sjáum landshluta þar sem eru nánast engin smit kannski í langan tíma þannig að það er eitthvað sem okkur finnst koma til álita og ætlum að skoða áfram á næstu dögum,“ segir Svandís. Þó þurfi líka að hafa í huga að þegar harðari takmarkanir giltu á höfuðborgarsvæðinu blossuðu upp smit í Eyjafirði, Akureyri, Dalvík og víðar. 

Svandís segir að í minnisblaði sem sóttvarnalæknir skilaði henni í síðustu viku en dró svo til baka um helgina hafi hann lagt til að fjöldatakmarkanir yrðu rýmkaðar upp í tuttugu manns. Þá hafi hann lagt til tiltekna opnun á sundstöðum og rýmkanir á sviði afreksíþrótta. 

Hún segist vænta þess að landsmenn séu tilbúnir til að snúa bökum saman til að ná böndum á faraldurinn. „Já, ég er bjartsýn á að það takist vegna þess að það er mikið í húfi. Það eru í fyrsta lagi jólin og svo í öðru lagi að við verðum á góðum stað með faraldurinn þegar við förum að geta bólusett sem verður, ef allar spár ganga eftir, á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þannig að það er til mikils að vinna að við náum að halda faraldrinum vel niðri fram að þeim tímapunkti,“ segir hún. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV