Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sjúkrahús í Kaliforníu komin að þolmörkum

01.12.2020 - 03:19
FILE - In this Nov. 19, 2020, file photo, Dr. Rafik Abdou checks on a COVID-19 patient at Providence Holy Cross Medical Center in the Mission Hills section of Los Angeles. The raging coronavirus pandemic has prompted Los Angeles County to impose a lockdown to prevent the caseload from spiraling into a hospital crisis but the order stops short of a full business shutdown that could cripple the holiday sale season. (AP Photo/Jae C. Hong, File)
 Mynd: AP
Yfirvöld í Kaliforníu óttast að fjöldi þeirra sem leita þurfa á sjúkrahús vegna COVID-19 eigi eftir að þrefaldast á næstu vikum. Í gær voru nær 8.600 manns á sjúkrahúsi í Kaliforníu vegna veikinnar og hafa aldrei verið jafn margir samtímis af þessum sökum. COVID-19 sjúklingum á sjúkrahúsum ríkisins fjölgað um 89 prósent á síðustu tveimur vikum.

Óttast sprengingu eftir þakkargjörðarflakk

Óttast er að sprenging verði í fjölgun nýsmita á næstu dögum, eftir nýliðna þakkargjörðarviku þar sem milljónir voru á faraldsfæti, og að fjölgun innlagna verði í takt við það. Þær gætu jafnvel þrefaldast fram að jólum, að mati heilbrigðisyfirvalda í ríkinu, sem þýddi að öll sjúkrahús Kaliforníu yrðu yfirfull um hátíðarnar.

Gæti þurft að herða mjög á öllum takmörkunum

Strangar sóttvarnareglur eru í gildi í Kaliforníu en ríkisstjórinn, Gavin Newsom, sagði í gær að þær þurfi að herða enn frekar, haldi þróunin áfram á sömu braut. Útgöngubann frá 10 á kvöldin til 5 að morgni er nú þegar í gildi í ríkinu öllu og í Los Angeles tók algjört bann við hvers kyns samkomum gildi í gær. Á það jafnt við um samkvæmi í heimahúsum sem samkomur í almannarými.

Newsom segir að ef ekki fer að hægja merkjanlega á nýsmitum og sjúkrahúsinnlögnum á allra næstu dögum verði gengið enn lengra og útilokar ekki að gripið verði til jafn róttækra úrræða og í vor. Þá var öllum gert að halda sig heima nema til að sinna allra brýnustu erindum og samfélagslega mikilvægum störfum.