Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sigríður fær harðar ákúrur frá dómurum yfirdeildarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Allir 17 dómarar yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu voru í grundvallaratriðum sammála um að staðfesta úrskurð dómstólsins í Landsréttarmálinu. Í dómnum, sem var birtur í morgun, er mikilvægi sjálfstæðis dómstóla margítrekað og ákvarðanir Sigríðar Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og samþykki þeirra á Alþingi, metnar ólöglegar. Þetta er endanleg niðurstaða Mannréttindadómstólsins og ekki hægt að áfrýja dómnum.

Fékk óréttláta málsmeðferð fyrir ólöglegum dómi 

Dómurinn er á ensku og í lengra lagi. Málið er reifað þar í smáatriðum frá byrjun, en í málsgreinum 260 til 267 er farið yfir ákvarðanir Sigríðar sem dómsmálaráðherra þegar hún skipaði dómarana við Landsrétt fyrir meira en þremur árum, vorið 2017. Þá er sú niðurstaða dómsins síðan í mars í fyrra, að Guðmundur Andri Ástráðsson hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti, staðfest þar sem dómurinn sjálfur var ólöglega skipaður.

Ekki nóg að vera ósammála og taka svo ákvarðanir

Þar segja dómarar yfirdeildarinnar meðal annars að þótt ráðherra hafi verið ósammála niðurstöðu hæfnisnefndarinnar varðandi dómaraskipan þýðir ekki að hún hafi getað skipað dómara eftir sínu höfði án þess að færa fyrir því nægilega góð rök. Þær aðferðir sem ráðherra beitti þar dragi verulega úr trúverðugleika alls ferlisins. Dómurinn finnur einnig að því að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur Sigríðar, hafi verið í meirihluta á þinginu á þessum tíma og þannig hafi tillögur hennar fengið samþykki þar. Í dómnum segir í stuttu máli að það gæti virst sem svo að skipan dómaranna hafi verið pólitísk, en það hafi þó ekki áhrif á niðurstöðuna í máli Guðmundar Andra. 

Hefði átt að vita betur

Þá eru ákvarðanir Sigríðar sömuleiðis harðlega gagnrýndar vegna þess að hún hafi átt að vera fullkomlega meðvituð um að þessar skipanir gætu reynst dýrkeyptar frá lagalegu sjónarmiði. Sú staðreynd að ráðherrann fylgdi ekki settum reglum sé töluvert meira áhyggjuefni í ljósi þess að hún hafi verið ítrekað minnt á hennar lögbundnu skyldur, meðal annars af formanni hæfnisnefndarinnar og hennar eigin ráðgjöfum.