Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Rekstur borgarinnar neikvæður um 11,3 milljarða 2021

01.12.2020 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Rekstrarniðurstaða af samstæðu Reykjavíkurborgar verður neikvæð um 11,3 milljarða á næsta ári, miðað við fjárhagsáætlun borgarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti áætlunina á fundi borgarstjórnar í dag.

Borgin ætlar að bregðast áhrifum kórónuveirufaraldursins með grænum fjárfestingum fyrir 175 milljarða króna á næstu þremur árum. Fjárfestingin verður aðallega fjármögnuð með lánsfé. Fyrsti gjalddagi lána verður árið 2025.

Reksturinn verður neikvæður næstu ár vegna tekjufalls og aukinna útgjalda vegna kórónuveirufaraldursins. Gert er ráð fyrir viðsnúningi árið 2022 og að þá verði rekstrarniðurstaða borgarinnar jákvæð.

Skuldaviðmið samstæðu Reykjavíkurborgar, án Orkuveitu Reykjavíkur sem er í eigu borgarinnar, eru undir því hámarki sem sveitarfélögum er sett í lögum. Árið 2021 er gert ráð fyrir að skuldir borgarsjóðs verði 110,7 prósent umfram tekjur. Samkvæmt lögum má það hlutfall ekki vera meira en 150 prósent á ári.

Skuldaviðmið samstæðunnar fara hæst í 132,1 prósent árið 2024 ef skuldir Orkuveitunnar eru undanskildar. Með Orkuveitunni verður skuldaviðmiðið 167,2 prósent árið 2024.

Með samstæðunni er átt við bæði A-hluta reksturs borgarinnar sem er borgarsjóður og B-hluta sem inniheldur stofnanir og fyrirtæki í eigu borgarinnar.

28 milljarðar í fjárfestingu á næsta ári

Í fréttatilkynningu borgarinnar um fjárhagsáætlunina segir að borgin ætli að nota styrk sinn og lága skuldastöðu til að mæta efnahagshögginu og fjárfesta fyrir um 28 milljarða króna á næsta ári. Þessa áætlun kallar borgarstjóri Græna planið. Á næstu þremur árum ætlar borgin og fyrirtæki í eigu hennar að fjárfesta fyrir 175 milljarða króna.

Þá verður fjöldi starfa hjá borginni tryggður. Atvinnuleysi meðal borgarbúa var 10,1 prósent í október. Meðfram auknu atvinnuleysi hefur eftirspurn eftir fjárhagsaðstoð borgarinnar til einstaklinga aukist mikið á síðustu misserum. Búist er við að notendum þeirrar þjónustu fjölgi mikið á næstu árum.

Grænar áherslur í fjárfestingu

Umtalsverður rekstarhalli blasir við vegna þessara auknu fjárfestinga og útgjalda. Dagur borgarstjóri segir þetta vera rétt viðbragð við kórónuveirufaraldrinum.

„Við erum að bregðast við efnahagssamdrætti og atvinnuleysi og raunar loftslagsvá með því að halda sjó í rekstrinum, fara í mjög mikið fjárfestingarátak og beina henni í græna átt, í græna innviði í samgöngum, í græna innviði í þjónustu og grænni borg,“ segir Dagur. „Þannig að við erum með grænu plani að bregðast rétt við kórónuveirufaraldrinum og beina því í rétta átt út frá loftslagsmálunum.“

Dagur segir að það hafi ekki verið fyrsti kosturinn að skuldsetja borgarsjóð á krepputímum. „Það er aldrei fyrsti kostur. En í þessari þröngu og flóknu stöðu, þá er það einmitt það sem er rétt; að verja reksturinn, fara í fjárfestingar.“

Meðal lykilfjárfestinga í Græna planinu til ársins 2030 eru:

  • 175 milljarðar á næstu þremur árum, stór hluti þeirra grænar fjárfestingar. Borgin ætlar að fjárfesta fyrir 95 milljarða og fyrirtæki borgarinnar fyrir 80 milljarða. Stærstu fjárfestingarnar verða í grænum innviðum og félagslegu húsnæði.
  • Einum milljarði króna verður varið í að búa til ný störf fyrir atvinnulausa, stuðningsúrræði og virkni fyrir fólk á fjárhagsaðstoð á næsta ári. Þá verða fimm milljarðar lagðir til árlega í uppbyggingu búsetuúrræða fatlaðs fólks, fyrir heimilislausa og fjölgun félagslegra íbúða.
  • Grænar fjárfestingar í samgöngusáttmála ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verða yfir 50 milljarðar til 2030.
  • 10 milljarðar fara í að gera þjónustu borgarinnar stafræna, eins og kostur er.
  • Nýir skólar og fleiri leikskólapláss.
  • Fjárfest í grænni borg
  • Þrjár nýjar sundlaugar, knatthús og íþróttaaðstaða á áætlun
  • Uppbygging útivistarsvæða.
  • 12 milljarðar í 10.000 íbúðir í Reykjavík á tíu árum.