Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Óþarfi að bregðast við dómi yfirdeildar

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ekki er þörf á að bregðast við dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu segir dómsmálaráðherra. Landsréttur sé löglega skipaður samkvæmt íslenskum lögum. Dómar Mannréttindadómstólsins séu ekki lagalega bindandi hér á landi. Dómurinn sé tekinn alvarlega en Landsréttur muni starfa áfram og ólíklegt að taka þurfi mál upp að nýju, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. 

„Já, við tökum auðvitað dóma Mannréttindadómstólsins alvarlega enda erum við aðilar að Mannréttindasáttmálanum og dómarnir hafa haft áhrif á íslenskan rétt og þróun hans. Þeir eru samt ekki lagalega bindandi hér og breyta ekki einir og sér framkvæmd og túlkun íslenskra dómstóla á íslenskum lögum,“ segir Áslaug Arna.

Verður brugðist við þessum dómi á einhvern hátt?

„Ég tel ekki þörf á því. Þarna koma bara fram ákveðnar ábendingar en það er líka skýrlega tekið fram að þó þeir telji brotið á 6. gr. Mannréttindasáttmálans um óréttláta málsmeðferð þá sé ekki þörf á að taka upp málin og hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu málanna,“ segir Áslaug Arna.

Af þessum 4 dómurum sem um ræður er búið að endurskipa 3 þeirra en ekki þann fjórða. Hver er hans staða?

„Dómarar verða bara að dæma sjálfir um sitt hæfi. Það er eðlilegt að gefa þeim tíma til þess,“ segir Áslaug Arna.

Er hann ekki skv. þessu ólöglega skipaður?

„Hann er löglega skipaður skv. íslenskum lögum,“ segir Áslaug Arna.

Þessi dómur í morgun, er þetta áfellisdómur yfir þáverandi dómsmálaráðherra?

„Ég ætla ekki að tjá mig um það. Það var auðvitað ljóst þegar niðurstaða hæfisnefndar kom að það var ekki stuðningur við hana í þinginu og henni þurfti að breyta,“ segir Áslaug Arna.

Áttu von á því að stjórnvöld muni fjalla eitthvað frekar um þennan dóm eða er þetta endapunkturinn á þessu máli?

„Já, þetta er endapunktur á þessu máli. Landsréttur heldur áfram að starfa. Það þarf ekki að greiða bætur og ólíklegt að það komi til endurupptöku mála,“ segir Áslaug Arna.