Ólafur opinberar dagbækurnar: „Ekkert trúnaðarbrot“

Mynd: RÚV / RÚV

Ólafur opinberar dagbækurnar: „Ekkert trúnaðarbrot“

01.12.2020 - 14:26

Höfundar

Öll Icesave-samtöl og fundir Ólafs Ragnars Grímssonar með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur færði hann til bókar og það sama gildir um önnur samskipti og uppákomur í hans embættistíð. Í nýrri bók hans, Sögur handa Kára, sem tileinkaðar eru Kára Stefánssyni, má lesa um þekkt fólk um allan heim, fundi og einkasamtöl. Og Ólafur á nóg til.

Fyrrverandi forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, situr ekki auðum höndum þessa dagana frekar en venjulega. Nýlega kom út bók eftir hann sem heitir Sögur handa Kára sem upprunulega voru sagðar Kára Stefánssyni vini Ólafs til að létta honum lund og gefa vinaleg ráð. Bókin kom fyrst út sem hljóðbók en er núna komin einnig í bók með fjölda einstæðra ljósmynda sem færa fólk og atburði nær lesandanum. Ólafur kíkti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 og sagði frá bókinni og hvers vegna sögurnar eru eyrnamerktar Kára Stefánssyni.

Hvatningin kom frá Kára Stefánssyni

Eftir að hjónin Ólafur og Dorrit yfirgáfu Bessastaði og Guðni Th. Jóhannesson tók við lyklinum lögðust þau í mikil ferðalög. Eftir heimkomu í vor greindist Dorrit eins og kunnugt er með COVID 19 og var í einangrun um hríð í herbergi á heimili hjónananna. Dagar Ólafs einkenndust þá líka mikið af inniveru en hann sá um að setja reglulega mat fyrir utan herbergishurð eiginkonunnar og datt í hug til að stytta sér stundir þess á milli við að skrifa niður sögur um forvitnilegt fólk sem hann hefur rekist á síðustu áratugi. Hvatningin kom frá Kára Stefánssyni.

Áður en hann vissi af var hann kominn með 34 sögur sem sögðu frá ferðum hans til meðal annars Bandaríkjanna, Kína, Indlands, Mið-Austurlanda og víðar um heim. Honum datt þó ekki í hug að fara að gefa sögurnar út, enda fannst honum bókaútgáfa of hátíðleg. En þegar honum var bent á þann möguleika að segja sögurnar í hlaðvarpsformi sló hann til og þær komu út um miðjan september. „Það var ekki mikil kynning á því. Ég held ég hafi sett þrjú tíst á Twitter-reikninginn sem ég nota til að koma skilaboðum á framfæri en annað var ég ekki.“

Fólk kvartaði yfir að geta ekki flett Davíð og Jóhönnu upp

Uppátækið spurðist hins vegar fljótt út og fyrr en varði höfðu mörgþúsund manns hlustað á sögurnar á ýmsum miðlum. Þá hafði Forlagið samband og óskaði eftir að fá að gefa út bókina. „Kosturinn við útgáfu er að það er nafnaskrá svo menn geta flett því fram og aftur,“ segir hann.

Margir hafi til dæmis kvartað yfir því að hafa ekki getað flett því upp í hlaðvörpunum hve oft til dæmis Davíð Oddson, Halldór Ásgrímsson, Jóhanna Sigurðardóttir eða Bill Clinton komi fyrir. Nú er hægt að finna upplýsingar um það allt í efnisyfirlitinu en þau spila öll ágætis hlutverk í frásögnunum.

„Kári hefur nú leyft sér ýmislegt gagnvart öðrum...“

Kveikjan að bókinni var, eins og Ólafur greinir frá í fyrsta kaflanum, þegar Kári Stefánsson hringdi í Ólaf að leita aðstoðar í glímu við kínversk yfirvöld. „Hann hafði þung orð um örlög sem biðu samstarfsmanns í því flókna landi,“ útskýrir Ólafur sem reyndi að gefa vini sínum ráð en fann að þau myndu ekki duga. Hann greip þá til ráðs að segja honum sögur, „um samskipti mín við Kínverja, bæði til að létta honum lund og auka skilning á hve ungur nútíminn væri í Kína. Að margra þúsalda menning væri enn að móta samfélagið. Kári hefur ætíð haft gaman að sögum og gleðinni sem þær veita.“

Kári var hins vegar ekki spurður álits þegar Ólafur ákvað að setja nafn hans í titil bókarinnar og hlaðvarpsins en hann hafði ekki miklar áhyggjur af viðbrögðunum enda sé hann ekki endilega í stöðu til að benda fingri. „Kári hefur nú leyft sér ýmislegt gagnvart öðrum...“ segir hann glettinn.

Hrærður og þakklátur

Kvöldið áður en bókin kom út í hlaðvarpi ákvað hann loks að senda Kára skilaboð og segja honum frá áformum sínum og útgáfunni. „Ég hef stundum sent honum sms í gegnum tíðina og hann svarar yfirleitt svona þremur fjórum dögum seinna ef hann svarar. En núna svaraði hann eftir fjórar mínútur,“ segir Ólafur. Og Kári var augljóslega upp með sér. „Hann var ógurlega glaður og þakklátur. Þannig að ég þakka honum bara fyrir.“ Hann kveðst vona að fólk sjái kímnina og húmorinn í sögunum af uppákomunum og frægu fólki sem sýnir óvæntar hliðar á þeim. En inn í skemmtunina fléttast líka lærdómur.

Svo fóru Íslendingar að banka upp á og Ólafur bauð þeim inn í söguna og fljótt lifnuðu við minningar, liðnir atburðir, fundir og einkasamtöl. „Það var ekki meiningin að skrifa um Íslendinga eða þekkt fólk sem ég hef átt samskipti við heima en svo varð óhjákvæmilegt að leyfa þeim að komast að,“ segir hann.  Ýmsir íslenskir þekktir samtímamenn birtast á sviðinu.

Fólk vissi ekki að Ólafur nóteraði allt

Það er mun meira til en birtist í bókinni og brátt ætti alemenningur að komast yfir þau gögn. Ólafur hélt í sinni embættistíð nokkuð ítarlegar dagbækur sem hann hefur nú farið með á Þjóðskjalasafnið. Um 250 kassar af skjölum frá honum með dagbókum, minnisbókum og fleiru bíða þar afgreiðslu.

Þó ég hafi ekki greint frá því, skrifaði ég niður nótur frá öllum fundum sem ég átti með íslenskum ráðamönnum á meðan ég var forseti. Það er eins gott að þeir vissu ekki af því, þeir hefðu ekki talað jafn opið og þeir gerðu.

Ekkert trúnaðarbrot

Ólafur bendir á að í Bretlandi og Bandaríkjunum sé sú afstaða tekin að þeim sem gegna opinberum trúnaðarstörfum beri skylda til að deila frásögnum af samtímanum og framtíðinni og „að það sé ekkert trúnaðarbrot við þá sem þeir tala við,“ segir hann.

Það væri því undarlegt að fara að ýfa sig yfir því að gögnin verði gerð opinber þegar að því kemur. „Það kemur í ljós hvenær þetta verður opnað. En kannski því ég hef haft gaman að þessu, að skrifa bókina, mun ég dunda mér við það sjálfur að koma þessu á framfæri.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Davíð skrifar sjálfur vikulega frásagnir um menn og málefni, segir Ólafur um Davíð sem kemur oft fyrir í bókinni.

Ekki fyrstur til að opinbera fundi og einkasamtöl

Aðspurður hvort hann telji að þeir sem eigi í hlut skjálfi á beinum yfir opinberunum kveðst Ólafur ekki hafa áhyggjur af því enda sé hann ekki fyrstur til að leysa frá skjóðunni um einkasamtöl.

Össur skrifaði nú heila bók sem var meira og minna um mig og þá sem voru með honum í ríkisstjórn og Davíð skrifar reglulega í Morgunblaðið frásagnir af samtölum hans við menn vítt og breitt um veröldina.

Það sé þó ekki algengt að menn búi yfir jafn ítarlegum gögnum um slíka fundi, fáir hafa verið jafn duglegir að skrásetja og Ólafur.

Án þess að gerast dómari í eigin málum efast ég um að nokkur annar maður sem gengt hefur opinberum stöðum á Íslandi hafi skráð jafn ítarlega frásagnir af viðburðum, samtölum og öðru eins og ég gerði.

Öll Icesave-samtölin skrásett

Og umræður og framvinda í hitamálum voru skrásett ítarlega og ekkert dregið undan.

Ég á til dæmis frásagnir af öllum Icesave-samtölunum sem ég átti við ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og uppköstin að yfirlýsingum sem ég gerði því það tók tíma að móta afstöðu í þeim málum. Auk dagbókanna og minnisbókanna eru uppköst að lykilyfirlýsingum og öðru sem ég hugsa að mörgum muni finnast fróðleg.

 

Gerir stóran hluta aðgengilegan á næstu misserum

Gamla íslenska hefðin sé að gera slíkt ekki aðgengilegt fyrr en að áratugum liðnum en Ólafur bendir á að þá sé kannski ekki lengur áhugi á að draga lærdóm af frásögninni. „Mín afstaða er að okkur beri skylda til að láta þetta í té með þeim hætti að samtíminn geti dregið af þessu lærdóm,“ segir hann. „Þess vegna kom ég þessu fyrir á Þjóðskjalasafninu áður en ég mun hverfa á brott úr þessu lífi og mun gera stóran hluta af þessu aðgengilegan á næstu misserum.“

Að lokum kveðst Ólafur hlakka til jólahaldsins. Hefðin á hans heimili er að halda jólin sem kjöthátíð, ekkert vegan á borðunum, enda sé það hin íslenska hefð. „Hangikjöt, rjúpur og svo hefur erlendum réttum eins og hamborgarhrygg verið hent inn.“

Rætt var við Ólaf Ragnar Grímsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.