Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Niðurstaða MDE vonbrigði segir Áslaug Arna

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að niðurstaða Mannréttindadómsstól Evrópu í Landsréttarmálinu séu vonbrigði. Forsætisráðherra segir að það hafi verið rétt mat að vísa málinu til efri deildar MDE. Það hafi tekið af vafa um málið.

„Hún er vissulega vonbrigði, við höfðum vænst til þess að honum yrði snúið við í samræmi við okkar málflutning. Það er margt áhugavert í þessum dómi og rökstuðningi með honum sem ég þarf að skoða nánar og mun leggjast yfir það núna og svara síðan spurningum síðar í dag. En sú staðreynd að yfirdeildin tók þetta til meðferðar er staðfesting á því hversu þýðingarmikið lögfræðiálitaefni var um að ræða og tilefni var til að fá óhyggjandi niðurstöðu um,“ segir Áslaug Arna.

Katrín Jakobsdóttir segir að niðurstaða dómsins skýri fyrri niðurstöðu dómsins og sé samhljóða, sem fyrri dómur var ekki.

„Það sem er mikilvægasta niðurstaðan er að þetta snýst um fjóra dómara en ekki allan Landsrétt. Það er niðurstaðan að það hafi verið alvarlegir annmarkar við skipan þessarra dómara en líka reifað að þrjú af þeim hafa sagt embætti sínu lausu og sótt um á nýjan leik og gengið í gegnum nýtt mat hæfnisnefndar. Ekki er gerð við það athugasemd eins og ég skil hann,“ segir Katrín.

Katrín segir að Sigríður Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi borið pólitíska ábyrgð á málinu með því að segja af sér. 

Áslaug Arna segir að yfirdeild MDE taki aðeins örfá mál fyrir hverju sinni og niðurstaða dómsins hafi ekki sjálfkrafa áhrif hér á landi

„Niðurstöður MDE hafa ekki sjálfkrafa bein áhrif hér á landi. Yfirdeildin hefur rétt metið svo að mikilvægt sé að fara yfir forsendur og niðurstöður fyrri dómsins sem gekk þvert á niðurstöðu Hæstaréttar Íslands. Við tökum þessa niðurstöðu að sjálfsögðu alvarlega enda erum við aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu og dómarnir hafa haft mikil áhrif á þróun íslensks réttar þó þeir haggi ekki sjálfkrafa úrlausnium eða túlkun íslenskra dómstóla á lögum. Við búum í réttarríki þar sem engin vafi má ríkja um sjálfstæði dómstóla og almenningur verður að geta borið fullt traust til starfsemi þeirra,“ segir Áslaug Arna. 

Áslaug var spurð að því eftir ríkisstjórnarfund hvort að hún teldi að niðurstaða dómsins kalli á breytingar og hvort að það hafi verið óþarfi að vísa málinu til efri deildar MDE.

„Það er alveg óvíst (hvort að gera þurfi breytingar)  , ég þarf að fá tíma í dag til að leggjast yfir dóminn. Ég held að það hafi verið afar mikilvægt að fá skýrari svör við nokkrum atriðum sem voru óskýr í fyrri dómi, og mér sýnist það vera svo en ég þarf að leggjast yfir dóminn í dag.“ segir Áslaug Arna.

Katrín telur að það hafi verið rétt að vísa málinu til efri deildarinnar, það hafi tekið af allan vafa.

„Fyrri niðurstaða var ekki einróma, hún var líka töluvert opnari fyrir túlkun eins og við munum þar sem menn voru ekki á eitt sáttir um hvort að túlka ætti hann þannig að  hann ætti við um allan dóminn eða eingöngu þessa fjóra. Þessi niðurstaða er mun skýrari svo ég tel að þetta hafi verið rétt mat,“ segir Katrín.

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður ræddi við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum í morgun. Viðtölin má sjá hér að ofan og neðan.

Mynd: Þór Ægisson / RÚV