Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Niðurstaða MDE sögulegur áfellisdómur

01.12.2020 - 19:35
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata segir dóminn áfellisdóm yfir afskiptasemi Sjálfstæðisflokksins. Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður segir að niðurstaða MDE í Landréttarmálinu sé skýr, rétturinn vilji ekki sjá pólitísk inngrip við skipan dómara.

„Niðurstaða MDE er skýr með þessarri niðurstöðu og fordæmisgefandi, ekki aðeins fyrir íslenskt dómskerfi heldur líka fyrir öll aðildarríki Evrópuráðsins. MDE gefur skýr skilaboð, hann vill ekki sjá pólitísk inngrip við skipan dómara eins og gerðist hér við skipan dómara við Landsrétt,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsins.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata og fulltrúi á Evrópuráðsþinginu tekur í sama streng og segir niðurstöðuna sögulegan áfellisdóm.

„Þetta er fyrst og fremst sögulegur áfellisdómur yfir áratugalangri afskiptasemi Sjálfstæðisflokksins, pólitískum skipunum dómara. Þetta er líka skelfileg niðurstaða fyrir þessa ríkisstjórn sem ákveður að fara í þessa sneipuför, kosta skattgreiðendur, okkur mikla réttaróvissu, gríðarlegan tilkostnað til einskis nema að nú er búið að staðfesta að rangt var að þessu staðið. Það er stórhættulegt fyrir okkar réttarkerfi að þetta hafi fengið að viðgangast svona lengi,“ segir Þórhildur Sunna. 

Dómsmálaráðherra sagði í dag að ekki sé þörf á að bregðast við dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu, Landsréttur sé löglega skipaður samkvæmt íslenskum lögum. Rósa Björk gefur lítið fyrir þessi ummæli.

„Þau valda mér miklum vonbrigðum. Það er ábyrgðaleysi af dómsmálaráðherra að segjast ekki ætla að gera neitt meir þegar enn leikur vafi á lögmæti skipan dómaranna við Landrétt  og þar með dómana sem þeir hafa kveðið upp. Með þessarri niðurstöðu er gefið færi fyrir einstaklinga sem hafa verið dæmdir að óska endurupptöku. Ríkisstjórnin getur ekki grafið hausinn í sandinn.“ segir Rósa.

Þórhildur Sunna segir að staða Landsréttar sé í mikilli óvissu í framhaldinu.

„Hún er ennþa í uppnámi vegna ábyrgðaleysiss þessarrar ríkisstjórnar, svifaseinna viðbragða og endalausra málaferla þá er ekki búið að skera úr um hvað verður um þessi fjögur dómarasæti,“ segir Þórhildur Sunna. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV