Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Magni, Elín Ey, Naglbítar og fleiri komnir í jólagír

Mynd: RÚV / RÚV

Magni, Elín Ey, Naglbítar og fleiri komnir í jólagír

01.12.2020 - 20:00

Höfundar

Útgáfa vikunnar er í hátíðarskapi. Í Undiröldunnar að þessu sinni eru ný jólalög frá Magna Ásgeirssyni, sem er afmælisbarn dagsins, Elínu Ey, Siggu Toll og Sigga Guðmunds, Elísabetu Ormslev og Sverri Bergman, auk þess sem Heiða Ólafs, Stefán Jakobsson og 200.000 Naglbítar koma við sögu.

Magni & Norðurljósin - Frá Borg er nefnist Betlehem

Norðurljósin er félagsskapur sem hefur staðið fyrir samnefndum jólatónleikum í Hofi á Akureyri siðustu ár. Nú verða auðvitað engir tónleikar þannig að það var talið í lag í staðinn. Magni á afmæli í dag og Undiraldan óskar honum til hamingju með daginn.

Elín Ey - Jólaljósin

Elín Ey var að senda frá sér sitt fyrsta jólalag og það er hátíðarbragur yfir þessari fjölskylduútsetningu. Elísabet og Sigríður Eyþórsdætur útsetja lagið sem er svo mixað af Reyni Snæ og masterað af Friðfinni Sigurðssyni. Þorleifur Gaukur Davíðsson er þarna líka en hann mundar munnhörpuna.

Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson - Það eru Jól

Lagið er titillag nýútkominnar hátíðarplötu þeirra, sem er safn hátíðarlaga áranna 2014-2020. Sigurður Guðmundsson syngur með Sigríði ásamt því að spila á kassagítar, Tómas Jónsson spilar á píanó og hljóðgervla og Guðmundur Óskar Guðmundsson leikur á bassa.

Heiða Ólafs og Stebbi Jak - Jól án Þín

Heiða og Stebbi hafa nokkrum sinnum sungið saman á tónleikum en ekki farið áður í hljóðver saman. Heiða hefur sungið jólalög um árabil, bæði sem sólólistamaður og með Frostrósum til dæmis, en þetta er fyrsta jólalagið sem Stebbi hljóðritar. Stebbi er því að gera margt nýtt 2020 eins og til dæmis að taka þátt í Söngvakeppninni með hljómsveit sinni Dimmu með góðum árangri, kenna börnum tónlist á heimahögunum í Mývatnssveit og nú senda frá sér jólalag. Þau eru bæði þekkt fyrir kraftmikinn söng og þótti því tilvalið að syngja saman stórt jólablús-lag.

200.000 Naglbítar - Í fjarska logar lítið ljós

Naglbítarnir eru í hátíðarskapi og senda frá sér jólalag sem er jafnframt þeirra fyrsta jólalag. Matthías Stefánsson spilar á fiðlu og víólu en Vignir Snær Vigfússon útsetti strengi.

Elísabet Ormslev og Sverrir Bergmann - Það koma alltaf Jól

Söngvararnir síkátu Elísabet Ormslev og Sverrir Bergmann gefa út nýtt jólalag sem er eftir Ingvar Alfreðsson. Benedikt Brynleifsson leikur á trommur og slagverk, Jóhann Ásmundsson mundar bassann, Kjartan Baldursson sá um gítara. Ingvar Alfreðsson sá um allt annað, píanó, hljómborð og raddir. Og svo er blásturssveit með í för, þar eru Kjartan Hákonarson á trompet, Óskar Guðjónsson á saxófón, og Samúel J. Samúelsson á básúnu.

Bergmál - Askasleikir

Grínbandið Bergmál var stofnað í janúar 2014. Bergmál eru þær Elísa Hildur Þórðardóttir og Selma Hafsteinsdóttir, söngkonur og lagahöfundar.

Tónlistin er frumsamin og sérstaða þeirra að blanda húmor saman við lagasmíðina með því markmiði að létta lund áhorfenda. Tónlistin er melódísk, grípandi og skemmtileg en þær hafa vakið athygli þar sem þær hafa komið fram með einlægri sviðsframkomu, góðum bröndurum og fáranlegri fyndni, að eigin sögn.

Lagið Askasleikir fjallar um uppáhaldsjólasvein allra íslenskra húsfreyja, en það er auðvitað hann Askasleikir, sem er með liprustu tunguna af öllum jólasveinunum.