Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Hér er gríðarleg skuldsetning“

01.12.2020 - 16:58
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
„Ég sé ekki að þetta sé sjálfbær rekstur,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, um fjárhagsáætlun borgarinnar sem meirihlutinn lagði fram í dag. Þar er gert ráð fyrir að halli á rekstri borgarinnar á næsta ári verið 11,3 milljarðar króna og að hallinn verði viðvarandi í tvö ár.

Meirihlutinn í borginni ætlar að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins með grænum fjárfestingum fyrir 175 milljarða króna á næstu þremur árum. Fjárfestingin verður aðallega fjármögnum með lánsfé.

„Hér er gríðarleg skuldsetning,“ segir Eyþór. „Og það sem maður hefur áhyggjur af er að skuldsetningin var líka áður en kreppan skall á.“

„Þá er náttúrlega aðalatriðið í hvað peningarnir fara. Maður sér í Græna planinu að það á að setja milljarða í malbikunarstöðina Höfða og það á að gera við hús við Tryggvagötu fyrir 4,5 milljarð. Þá spyr maður sig hversu skynsamlegt þetta er.“

„Auðvitað er margt gott en það þarf greinilega að fara miklu betur með peningana en þetta,“ segir Eyþór.

Atvinnulífið þarf tækifæri til að búa meira til

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gagnrýnt meirihlutann í borginni, sem er samstarf Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata, fyrir skuldasöfnun á kjörtímabilinu. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, segir borgina ekki vera of skuldsetta, heldur sé svigrúm til frekari skuldsetningar vegna heimfaraldurs kórónuveirunnar og efnahagslegs áhrifa hans.

Eyþór segir áherslur meirihlutans í borgarstjórn ekki vera réttar. „Ég hefði viljað sjá að það væri auðvelt að byggja íbúðir í Reykjavík, að atvinnulífið hefði meiri tækifæri til að búa meira til. Því á endanum er það atvinnulífið sem býr til verðmætin og það vantar að leyfa fólki að byggja á hagstæðum svæðum í Reykjavík,“ segir hann.

„Nú eru allt of margir til dæmis í foreldrahúsum og við sjáum að húsnæðisverð heldur áfram að hækka. Lausnin er ekki að skuldsetja sig heldur að auðvelda fólki og fyrirtækjum að búa til sitt líf.“

Ekki sjálfbær rekstur

Eyþór tekur undir að borgin þurfi að fjármagna sig á einhvern hátt á þessum erfiðu tímum og að hún þurfi að fara vel með það sem hún tekur að láni. „Ég sé ekki að þetta sé sjálfbær rekstur. Þegar verið er að tala um sjálfbærni þá er alveg ljóst að þetta er ekki sjálfbær þróun sem lögð fyrir okkur hér.“

„Skuldahlutfallið verður mjög hátt – 170% á tímabilinu fyrir samstæðuna,“ segir hann og bætir við að það sé þvert á loforð flokkanna sem mynda meirihlutann fyrir síðustu kosningar. Það er eitthvað sem menn ætluðu alls ekki að gera fyrir kosningar.

„Þeir sögðust ætla að borga niður skuldir. Þannig að ég held að þarna séu menn að fara fram úr sér.“

Útsvarið í toppi

Spurður hvort Sjálfstæðismenn fagni því ekki að borgarstjóri ætli ekki að hækka skatta, segir Eyþór: „Hann getur ekki hækkað skattana meira í útsvarinu. Útsvarið, það er launaskatturinn, er í lögbundnu hámarki og það er ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem tekur jafn mikið af launum fólks heldur en Reykjavíkurborg. Það er í toppi.“

Vilja ráðstafa arðgreiðslum OR

Sjálfstæðisflokkurinn í borginni sendi fjölmiðlum tilkynningu síðdegis í dag þar sem stefna meirihlutans er enn gagnrýnd. Flokkurinn ætlar að leggja til að arðgreiðslur Orkuveitu Reykjavíkur verði ráðstafað til lækkunar útsvars á borgarbúa.

Útsvarið er nú 14,52 prósent en verður 14,07 prósent ef tillaga nær fram að ganga. Þá er einnig lagt til að arðgreiðslurnar vegi upp á móti tekjufalli af lækkun fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega.

Fyrsta umræða um fjárhagsáætlun borgarinnar fer fram á borgarstjórnarfundi í dag. Önnur umræða fer fram á næsta fundi borgarstjórnar eftir tvær vikur.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV