Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framleiða osta úr mildum geitum í Fljótunum

01.12.2020 - 19:41
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
„Þeir seljast eins og heitar lummur," segir sauðfjárbóndi í Fljótunum um bjórleginn geitaost sem framleiddur er á bænum Brúnastöðum. Bjórinn kemur þó víðar við sögu í framleiðslunni því geiturnar sjálfar fá að njóta góðs af bjórframleiðslu á Siglufirði.

Verið draumur lengi

Hjónin Stefanía Hjördís og Jóhannes hafa lengi gengið með draum um heimavinnslu á afurðum af búinu. Það var svo árið 2018 sem þau létu verða að því og hófu framkvæmdir.

„Þetta er auðvitað ekki mikið magn sem við erum með núna í haust, eitthvað um 200 kíló. Það verða ekki margir ostar úr þessum 100 lítrum sem fara í ostatankinn. Það er bara svona um 10% af geitamjólkinni sem verður ostur en þeir seljast eins og heitar lummur,"segir Stefanía. 

Osturinn baðaður upp úr bjór

Þrátt fyrir að hafa sótt námskeið í ostagerð fengu hjónin Guðni Hannes Guðmundsson, mjólkurfræðing með sér í lið við hönnun og vinnslu fyrst um sinn.

„Allt í einu kom upp sú hugmynd að af því að geiturnar fá hratið frá Segli á Siglufirði, bruggverksmiðjunni, þá datt okkur í hug að gefa honum smá bað líka, uppúr bjórnum. Hugmyndin var nú aðallega fá bara lit á skorpuna en svo kom það bara í ljós að það var að gera trikkið við ostinn," segir Guðni. 

Geiturnar alltaf svolítið mildar

En það er ekki bara osturinn sem fær að baða sig í bjórnum heldur fá geiturnar einnig að njóta því þær borða hrat sem fellur til við bjórgerðina á Siglufirði.

„Þetta er mjög gott fyrir þær, geta étið mikið af þessu án þess að verða veikar og líkar vel við þetta. Svo er náttúrulega pínu áfengi í þessu þannig að þeir eru svolítið mildar. Og ég ætla gefa ykkur bara pínu smakk," segir Jóhannes.  

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Guðni Hannes Guðmundsson, mjólkurfræðingur