Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Forsetinn þakkaði heilbrigðisstarfsfólki í ávarpi

01.12.2020 - 19:54
Innsetningarathöfn forseta íslands 1. ágúst 2020
 Mynd: RÚV
Þjóðin hefur sýnt þrautsegju og þolgæði í faraldrinum sem minnt hefur á að úrbóta sé þörf á sjúkrastofnunum og dvalarheimilum en heilbrigðisstarfsfólk staðið vaktina með prýði. Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti meðal annars í ávarpi á RÚV í kvöld í tilefni fullveldisdagsins.

Guðni ljáði máls á því að vegna faraldursins væri fullveldisdeginum fagnað með öðru sniði en vanalega. Venjulega væru viðburðir af þessu tilefni og hann færi út á meðal fólks til að minnast þess að Ísland fékk fullveldi frá Danmörku á þessum degi árið 1918.

Farsóttin, sem herjar á okkur, hefur orðið fólki að fjörtjóni. Margir hafa veikst illa. Aðgerðir okkar og annarra þjóða til að stemma stiga við faraldrinum hafa leitt til atvinnuleysis hér og efnahagshremminga. Skólastarf er gengið úr skorðum, hvers kyns þjónusta og afþreying sömuleiðis.

Forsetinn þakkaði fyrir hönd þjóðarinnar starfsfólki Landspítala og öðru heilbrigðisstarfsfólki fyrir vel unnin störf meðan COVID-19 herjar á. Hann þakkaði einnig sérfræðingum háskólanna og Íslenskrar erfðagreiningar og öðrum fyrirtækjum og stofnunum sem lagt hafa sitt að mörkum í sóttvörnum.

Ég nefni líka lögreglu, landhelgisgæslu og björgunarsveitir, alla sem við getum leitað til ef vá ber að höndum. Gleymum ekki heldur starfsfólki í verslun og þjónustu eða kennurum og skólaliðum, stjórnendum og ræstitæknum sem halda menntastarfi gangandi við krefjandi aðstæður, að ekki sé minnst á nemendurna. Við þau ungmenni vil ég segja að þið hafið þolað þetta erfiða ástand og staðið ykkur með prýði ‒ ekki láta deigan síga núna!

Hann minntist einnig farsóttarinnar sem gekk um landið á fullveldisárinu þar sem á sjötta hundrað manns létu lífið sem væri um tvö þúsund manns miðað við íbúafjölda hér í dag. Þá var engu velferðarkerfi til að skipta sem seinni kynslóðir byggðu upp. Fólk sýndi, líkt og nú, þrautseigju og þolgæði, samstöðu og samkennd.

Mergur málsins er því þessi: Þótt vandi okkar nú megi teljast ærinn bliknar hann miðað við þrautir fyrri tíma. En að sjálfsögðu þýðir sá samanburður ekki að við ættum að sætta okkur við hvaðeina sem bjátar á.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV