Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Faraldurinn hefur kostað Húnaþing vestra mikið

01.12.2020 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Heildarkostnaður Húnaþings vestra vegna kórónuveirufaraldursins er nú orðinn tæpar níutíu milljónir króna. Um vikutíma í mars voru allir íbúar sveitarfélagsins í sóttkví og kostaði það sveitarfélagið um tvær og hálfa milljón króna á dag.

Segja má að loka hafi þurft samfélaginu í Húnaþingi vestra þegar þar kom upp víðtækt smit í vor. Frá 21. til 27. mars fóru allir íbúar sveitarfélagsins í úrvinnslusóttkví á meðan unnið var að smitrakningu. Öll starfsemi sem ekki taldist lífsnauðsynleg lá þá niðri og aðeins einn af hverju heimili mátti fara út til að kaupa í matinn.

Heildarkostnaðurinn orðinn 88,3 milljónir

„Heildarkostnaður sveitarfélagsins fram til þessa dags, vegna COVID, er 88,3 milljónir. Og þar af eru 14,6 milljónir sem féllu til meðan á úrvinnslusóttkvínni stóð," segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri. Byggðarráð Húnaþings vestra bókaði á fundi sínum í gær áskorun til ríkisvaldsins um að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa þurft að grípa til sambærilegra aðgerða vegna faraldursins. „Og það er mjög mikilvægt því að þetta eru miklir peningar fyrir lítil sveitarfélög."

Ekki meira atvinnuleysi frá 2010

Hún segir áhrifanna gæta víða í sveitarfélaginu, einkum hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og annarri þjónustu sem þurft hefur að takmarka eða loka á árinu. Atvinnuleysi hefur ekki verið meira síðan í upphafi árs 2010. „Það er spáð atvinnuleysi núna í lok ársins upp á 5,8 prósent. Og það er með því hæsta á Norðurlandi vestra."

Ekkert smit í dag og enginn í sóttkví

En Ragnheiður Jóna segir ástandið gjörólíkt í dag miðað við þennan mjög svo erfiða tíma í vor. „Hér er ekkert smit og enginn í sóttkví, þannig að það er mikill léttir á meðan það er svoleiðis. Það er náttúrulega mikilvægt fyrir okkur að halda vöku okkar og gæta okkar."