Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Eivør Pálsdóttir - Segl

Mynd: Eivör Pálsdóttir / Eivör Pálsdóttir

Eivør Pálsdóttir - Segl

01.12.2020 - 15:50

Höfundar

Færeyska söngkonan og Íslandsvinurinn Eivør Pálsdóttir gaf út plötuna Segl í haust sem fylgir eftir plötunni Slør sem kom út árið 2017. Segl er plata vikunnar á Rás 2.

Á plötunni eru 12 lög en tvö þeirra hafa nú þegar fengið spilun í útvarpi. Það eru lögin Sleep On It og Let It Come. Samhliða útgáfu laganna komu út tónlistarmyndbönd í leikstjórn Einars Egils. Það er gestagangur á plötunni en Ásgeir syngur með henni í laginu Only Love og Einar Selvik í laginu Stirdur Saknur.

Fyrsta lagið varð til fyrir fjórum árum og síðasta lagið núna í júlí. Að sögn Eivarar er platan eins konar ferðalag í gegnum ljós og myrkur. Hún segir plötuna vera sögu um siglingu lífsins og að halda sinni stefnu. Síðan platan kom út hefur Eivör haldið nokkra tónleika heima í stofu sem hún hefur svo streymt á vefnum og útgáfutónleikar hennar voru líka rafrænir. Oftast syngur hún bæði á ensku og færeysku. Hún segirr að það geri ekkert til þó meirihluti hlustenda skilji ekki textann en hún á aðdáendur um allan heim. „Fólk kann að meta að heyra tungumál sem það skilur ekki því þá hlustar maður aðeins öðruvísi,“ sagði Eivør í Stúdíó 12 á dögunum. 

Platan Segl er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum frá Eivøru eftir 10 fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.