Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Brexit-völin og kvölin

01.12.2020 - 17:13
Mynd: EPA / EPA
Brexit var auðvelda leiðin ef marka mátti boðskap leiðandi Brexit-sinna fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sumarið 2016 um aðild Breta að Evrópusambandinu. Nú er einn þeirra við stjórnvöl þjóðarskútunnar og freistar þess að semja um viðskipti við ESB og daglega búist við fréttum af útkomunni. En af hverju hefur verið svona erfitt að semja um viðskipti til framtíðar?

Eining Bretlands eftir Brexit ekki eins auðsæ og Johnson virtist 2016

Þeir sem hvöttu Breta 2016 til að ganga úr Evrópusambandinu sögðu gjarnan að í raun myndi ekki mikið breytast nema þetta að Bretar tækju stjórn eigin mála. Bretland yrði jafn sameinað og áður og engu minna evrópskt, eins og þingmaðurinn Boris Johnson sagði í ávarpi í morgunsárið eftir sigur Brexitsinna í þjóðaratkvæðagreiðslunni um ESB-aðild Breta.

Þessi orð um einingu Bretlands hafa annan hljóm nú þegar Brexit hefur rækilega ýtt undir sjálfstæðishugmyndir Skota þó þær hafi orðið undir í atkvæðagreiðslu þeirra 2014. Og hversu evrópskt Bretland vill vera er óbeint undir í óútkljáðum samningum um framtíðarviðskipti Breta og ESB.

Viðskiptasamningur Breta við ESB yrði sá ,,auðveldasti í sögunni“

Tónninn var alltaf sá að það yrði fjarska auðvelt að semja um framtíðarviðskipti við þessa stærstu viðskiptablokk Breta. Ein fleygasta setningin í þá veruna voru ummæli Liam Fox þáverandi utanríkisverslunarráðherra í júlí 2017 um að fríverslunarsamningurinn, sem Bretar myndu verða að gera við ESB, yrði sá auðveldasti í sögunni.

Auðvelt að semja, sagði Fox, því Bretar og ESB byrjuðu á sama stað: engir tollar og fullkomin aðlögun að ESB-reglum og stöðlum. – Andstætt því sem er annars í fríverslunsamningum þegar samningsaðilar semja sig saman úr ólíkum áttum. Hið sérstaka við samningaviðræður Breta við ESB er að þarna eru samningsaðilar að semja sig í sundur. Brexit-andstæðingar hnykkja gjarnan á að hið einstaka við samningsstöðu Breta nú sé að í viðskiptalegu tilliti geti viðskiptaleg útkoma í raun aldrei orðið annað en eitthvað verra en viðskiptakostir ESB-aðildar.

Johnson: ítalskir prosecco bændur og þýskir bílaframleiðendur heimta ESB-samning við Breta

Boris Johnson, nú forsætisráðherra, sagði að samningar yrðu auðveldir því ítalskir prosecco bændur og þýskir bílaframleiðendur vildu ekki missa viðskipti við Breta. Það er, framtíðarviðskiptin væru ekki síður mikilvæg fyrir ESB en Breta. En það vill svo til að hagsmunir ESB deilast á 27 lönd: viðskipti við Breta skipta mestu í nágrannalöndum Breta, síður í fjarlægari ESB-löndum. Á móti hittir mögulegt efnahagshögg Breta eina fyrir.

Þrjú erfiðustu samningssviðin

Þau þrjú svið, sem hafa staðið í samningsaðilum, eru samkeppnisreglur, hvernig eigi að leysa deilur um framkvæmd fríverslunarsamnings og svo fiskveiðar. Fiskveiðar eru reyndar ekki liður í fríverslunarsamningi en ESB setti sem skilyrði að allt yrði undir einum samningshatti. Til að hindra hrossakaup um fiskveiðar á síðustu stundu ætluðu Bretar að klára fiskveiðisamningana í sumar en það mistókst.

Lykilspurningin: af hverju er fríverslunarsamningur Breta og ESB svo torveldur?

En þá er það lykilspurningin: af hverju hefur reynst svona ógnar erfitt að semja um fríverslun Breta og ESB, já og fiskveiðar? Mýmargar ástæðum en lítum á nokkur grundvallaratriði. ESB hefur ítrekað minnt Breta á að þeir séu að yfirgefa ESB, ekki öfugt. Samningsmarkmiðin stóðu lengi í Bretum, ekki síst vegna þessa fullkomna viðskiptasambands sem ESB-aðildin er. Andstætt því sem Fox og fleiri héldu reyndist það erfiður upphafspunktur. Þar af þetta sífellda umkvörtunarefni ESB að Bretar vildu bara halda í það sem væri þeim hagkvæmast, henda hinu.

Skýr samningsforsenda ESB: eining innri markaðarins

Andstætt Bretum var samningsforsenda ESB alveg skýr: ESB ætlaði ekki, gæti ekki samþykkt neitt, sem græfi undan innri markaðnum og á því roði hefur samninganefndin staðið eins og grimmur hundur.

Eining innri markaðarins skipti prosecco bændur og alla aðra meira máli en viðskipti við Breta

Og þetta var líka afstaðan sem vóg algjörlega upp viðskiptahagsmuni einstakra landa gagnvart Bretum: viðskipti við Breta skipta vissulega drjúgu máli bæði fyrir einstök lönd og fyrirtæki, fyrir prosecco-bændur og bílaframleiðendur, en órofin eining innri markaðarins skiptir þó alla þessa aðila miklu meira máli.

Mikið ber á milli í fiskveiðimálum

Í fiskveiðiefnum ber býsna mikið á milli, bæði hvað varðar aflahlutdeild og eins þetta að Bretar vilja breyta forsendum kvótakerfis ESB. Í þjóðhagslegu tilliti eru hagsmunir sjávarútvegs, bæði í Bretlandi og ESB svo litlir að þeir sjást vart með stækkunargleri. Í Frakklandi blasa þeir við í fjölda starfa í sjávarhéruðum. Líka fyrir Breta í viðbót við táknrænt gildi þess að geta sagst hafa stjórn á miðunum.

Sá á kvölina sem á völina

Viðkvæði Theresu May var að Brexit yrði gott fyrir Breta. Johnson þarf að sýna í raun að svo verði. Já, sá á kvölina sem á völina.

 

 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir