Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skammur fyrirvari kemur illa við veitingamenn

30.11.2020 - 19:27
Jakob Einar
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Jakob Einar Jakobsson, fulltrúi veitingamanna hjá Samtökum atvinnulífsins segir skamman fyrirvara á samkomutakmörkunum koma sérstaklega illa við veitingamenn. Það sé frábrugðið að veita þjónustu á veitingastöðum miðað við í verslunum.

„Það er skelfilegt ástand að vita ekki hvað býr rétt handan við hornið, við erum búin að vera í því frá 12. nóvember að hringja í á þriðja hundrað manns dag hvern og tilkynna því að það megi því miður ekki koma til okkar.  Auðvitað stóðu vonir okkar til að það yrði einhverju aflétt, en manni sýnist það stefna í óbreytt ástand. Það er alveg glatað að hafa ekki nema tvo daga til að bregðast við þeim aðstæðum,“ segir Jakob.

Þá sé óvissa um hversu lengi boðuð reglugerð gildir ekki til að minnka ófyrirsjáanleikan.

„Svo er það það, eru jólin endanlega farin eða fáum við seinustu 10 dagana fyrir jól til að gera eitthvað. Ég hef verið óþreytandi í að benda á það að veitingarekstur stendur mjög höllum fæti miðað við aðra geira. Það er grundvöllur veitingareksturs að fólk megi koma saman, þetta er ekki eins og verslun þar sem fólk getur hlaupið inn og út á tíu mínútum og eytt 50 þúsund kalli, þú þarf að geta haft fimm vinkonur þínar með þér og tvo tíma til að gera eitthvað.“ segir Jakob. 

Hann segir að komandi mánaðamót verði mörgum erfið í ljósi þess að ekki er hægt að sækja um lokunarstyrki ennþá. 

„Það blasir einna verst við minnstu fyrirtækjunum, þetta eru ekki háar upphæðir en það eru mánaðamót og ég veit að það eiga eflaust margir í erfiðleikum með þau eins og sakir standa.“ segir Jakob.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV