Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Saksóknari segir ólöglegan ágóða Samherja 4,7 milljarða

30.11.2020 - 21:51
Mynd með færslu
Bernard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu. Mynd: Stefán Drengsson - RÚV
Ólöglegur ávinningur Samherja af milliríkjasamningi namibískra og angólskra yfirvalda, sem nú er til rannsóknar vegna gruns um mútur og spillingu, er metinn á 548 milljónir Namibíudollara, jafnvirði um 4,7 milljarða íslenskra króna. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í beiðni sem namibískur saksóknari hefur lagt fram fyrir þarlendum dómstól um kyrrsetningu á eignum fjölmargra félaga vegna rannsóknar á þessum hluta Samherjamálsins, þeirra á meðal sex félaga á vegum Samherja.

Upphæðin sem saksóknarinn nefnir í beiðninni og kallar ólögmætan ávinning er fengin með því að umreikna 50 þúsund tonn af hrossamakrílskvóta, sem Samherji er sagður hafa fengið út úr samningnum, yfir í markaðsvirði þess tíma á hrossamakríl.

Dagblaðið The Namibian fjallar í tölublaði sínu sem dagsett er á morgun um 255 blaðsíðna eiðsvarna yfirlýsingu saksóknarans Mörthu Imalwa, sem fylgir beiðninni til yfirréttarins í höfuðborginni Windhoek.

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson - RÚV
Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Í yfirlýsingunni fullyrðir saksóknarinn að fimm menn sem ákærðir eru ytra í Samherjamálinu hafi fengið samtals 170 milljónir namibískra dollara í greiðslur frá félögum tengdum Samherja, jafnvirði 1,46 milljarða króna. Þar af hafi Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, fengið 25,2 milljónir dollara, jafnvirði um 217 milljóna króna. Bernard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, er sagður hafa fengið 11,7 milljónir namibískra dollara í sinn hlut vegna samningsins, jafnvirði um 100 milljóna króna, en ekki kemur fram hvort það fé hafi allt komið frá Samherja.

Ekki hafa áður komið fram svo nákvæmar tölur um greiðslurnar sem raktar eru til Samherjafélaganna og eru til rannsóknar vegna gruns um mútur og spillingu. Þá hefur ekki verið greint frá því áður hversu mikið ráðherrarnir tveir eru taldir hafa fengið í sinn hlut. Þeir hafa verið sagðir lykilmenn í að tryggja Samherja kvótann.