Jólahlaðborðum aflýst í Danmörku

Mynd með færslu
 Mynd: YouTube

Jólahlaðborðum aflýst í Danmörku

30.11.2020 - 15:59

Höfundar

Níu af hverjum tíu jólahlaðborðum hefur verið aflýst í Danmörku. Samtök í veitinga- og ferðaþjónustu skora á atvinnurekendur að gefa starfsfólki sínu þess í stað gjafakort á veitingahús.

Jólahlaðborðin skipta afar miklu máli í veitingageiranum í Danmörku. Horesta, samtök hótel-, veitinga- og ferðaþjónustufyrirtækja, áætla að veltan af þeim sé um 2,5 milljarðar danskra króna á ári, um það bil 54 milljarðar íslenskra króna.

Nýleg könnun á vegum samtakanna leiddi í ljós að um það bil níutíu prósentum jólahlaðborðanna hefur verið aflýst í ár vegna COVID-19 farsóttarinnar. Vegna hennar er fleiri en tíu óheimilt að koma saman í Danmörku um þessar mundir. Þarlend veitingahús hafa þegar orðið af miklum tekjum það sem af er ári.

Tekjur af jólahlaðborðunum hafa alla jafna nægt til að halda fyrirtækjum í veitingageiranum gangandi í janúar og febrúar þegar lítið er að gera. Horesta-samtökin hafa því beint því til atvinnurekenda að gefa starfsfólti sínu gjafakort á veitingahús sem kæmu í stað þess að bjóða því til veislu á aðventunni. Að sögn danskra fjölmiðla hafa nokkur stór fyrirtæki þegar orðið við því.