Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hringdi í fasteignasala og villti á sér heimildir

Mynd: RÚV / RÚV

Hringdi í fasteignasala og villti á sér heimildir

30.11.2020 - 08:51

Höfundar

„Ég kannski bara bið hann afsökunar á að hafa sóað tíma hans,“ segir Hildur Knútsdóttir rithöfundur sem rakst á dularfullt hús í Skólastræti þegar hún var að blaða í gegnum fasteignaauglýsingar. Hún þóttist vera áhugasamur kaupandi, fékk að skoða húsið og skrifaði svo þríleik sem gerist að hluta til í húsinu.

Hildur Knútsdóttir rithöfundur sendi fyrir jólin frá sér þriðju og síðustu bókina í þríleik sínum, Ljónið, Nornin og Skógurinn. Fyrir Ljónið og Nornina var hún meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut hún Bóksalaverðlaunin fyrir báðar auk þess sem Ljónið hreppti Barnabókaverðlaun Reykjavíkur. Skóginn er lokahnykkurinn.

Á milli bóka er ferðast langt í tíma og rúmi svo sögurnar eru ekki beint framhald hver af annarri. Þær tengjast þó og allar hverfast þær að einhverju leyti um hús í Skólastræti. Egill Helgason hitti Hildi Knútsdóttur fyrir framan húsið og ræddi við hana í Kiljunni.

Hugmyndina um að sviðsetja sögurnar í þessu tiltekna húsi fékk Hildur þegar hún var að fletta í gegnum fasteignaauglýsingar fyrir fjórum árum að leita sér að einhverju töluvert látlausara og ódýrara en risinu í þessu mikla húsi sem hún rambaði á. Hún freistaðist samt til að kíkja á auglýsinguna. „Ég skoðaði myndirnar, hafði auðvitað engan veginn efni á þessu en var að láta mig dreyma,“ segir hún.

Og margt á fasteignamyndunum kynti enn frekar undir forvitni hennar. „Mér fannst þetta svo skrýtið hús. Ótrúlega skakkur skorsteinn, fullt af ranghölum. Ég hugsaði: Hér gæti eitthvað spúkí hafa gerst.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Húsið sem Hildur féll fyrir.

Hún hringdi í fasteignasalann og þóttist vera áhugasamur kaupandi. „Ég kannski bara bið hann afsökunar á að hafa sóað tíma hans og villt á mér heimildir,“ segir Hildur.

Sá tók á móti Hildi og móður hennar sem lituðust um í íbúðinni. „Þar sá ég í risinu á bak við glugga svo ótrúlega skrýtinn skáp. Og það varð kveikjan að bókinni.“

Nokkrum vikum síðar, þar sem Hildur lá andvaka uppi í sumarbústað að hugsa um húsið, kom sagan til hennar. „Þá vissi ég að ég þyrfti að skrifa þessar þrjár bækur.“

Egill Helgason ræddi við Hildi Knútsdóttur í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Spennandi, áreynslulaust og fantavel gert

Bókmenntir

Dæmigerður reynsluheimur stúlkna á 21.öld