Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hafa ekki beitt dagsektum vegna jafnlaunavottunar

30.11.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Rúmlega 60% þeirra fyrirtækja og stofnana sem eiga að vera komin með jafnlaunavottun fyrir áramót, eru komin með slíka vottun. Um fjórðungur þeirra sem áttu að vera komin með vottun fyrir síðustu áramót er ekki kominn með vottun. Jafnréttisstofa hefur ekki beitt neinum dagsektum, þrátt fyrir að hafa heimild til þess.

Mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins, þau sem eru með 150 til 249 starfsmenn, eiga að vera komin með jafnlaunavottun fyrir áramót. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. 

Alls eiga 330 að hafa lokið innleiðingu um áramótin. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu eru 206 af þessum 330 komnir með vottun, eða um 62%. Þá hafa að auki 47 fyrirtæki og stofnanir lokið vottun, þótt þau þurfi ekki að vera búin að því fyrr en í lok næsta árs. Það eru fyrirtæki og stofnanir með 90 til 149 starfsmenn.

Óska skýringa

Jafnréttisstofa hefur heimild til þess að beita þau fyrirtæki sem ekki hafa lokið vottun á tilsettum tíma dagsektum. Samkvæmt upplýsingum frá Jafnréttisstofu verður dagsektum aðeins beitt að vel ígrunduðu máli, þar sem það sé íþyngjandi ákvörðun. Engum dagsektum hafi enn verið beitt gagnvart þeim sem áttu að vera búin fyrir síðustu áramót, fyrirtækjum og stofnunum með yfir 250 starfsmenn. 70 af þeim 264 fyrirtækjum og stofnunum hafa ekki fengið vottun, eða um fjórðungur. Helsta ástæða þess sé sú að fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög sem hafi séð fram á að klára ekki á tilsettum tíma séu fyrst og fremst að lenda í vanda vegna COVID-19. 

Strax eftir áramótin ætli Jafnréttisstofa hins vegar að óska eftir skýringum frá þeim fyrirtækjum sem hafa ekki uppfyllt þá lagaskyldu að öðlast vottun.