Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Geðræn vandamál fylgja notkun hýdroxýklórókíns

epa08380377 A pharmacist poses with a pack of Pasquenil,  the new drug based on hydroxychloroquine, in Turin, Italy, 23 April 2020. Pasquenil was distributed to pharmacies in Piedmont and is available to all COVID-19 patients treated at home amid the ongoing coronavirus COVID-19 pandemic. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/TINO ROMANO
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Lyfin klórókín og hýdroxýklórókín (Plaquenil), sem notuðu hafa verið í meðferð gegn COVID-19 og ekki gagnast, geta valdið geðrænum vandamálum og sjálfsvígshegðun. Donald Trump Bandaríkjaforseti mælti með notkun lyfjanna gegn veirunni í mars og notaði annað þeirra sjálfur þegar hann greindist með COVID-19 í október.

Á fundi Sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) fyrr í mánuðinum var ákveðið að breyta upplýsingum um eiginleika lyfjanna þar sem þessar afleiðingar notkunar þeirra koma fram. Eftir að spænska lyfjastofnunin AEMPS greindi frá sex tilfellum geðrænna vandamála hjá fólki sem notaði lyfin í stærri skömmtum en leiðbeiningar segja til um í baráttunni við COVID-19 var ákveðið að ráðast í endurskoðun á gögnum um lyfin. Sú vinna hófst í maí og eru þetta niðurstöðurnar.

Ekki virkað gegn COVID-19

Lyfin tvö eru notuð sem meðferð gegn sjálfsónæmissjúkdómum á borð við rauða úlfa og iktsýki, einnig sem forvörn og meðferð við malaríu. Fram kemur á Vísindavefnum að í rannsóknum árið 2004 og 2005 hafi komið í ljós að þau hindruðu vöxt kórónuveira í tilraunaglösum. Snemma í faraldrinum í vor hófust rannsóknir á fólki með lyfjunum, „sem sýndu misvísandi niðurstöður og voru auk þess litlar og af mismunandi gæðum“ samkvæmt svari Magnúsar Jóhannssonar, prófessor emiritus í líflyfjafræði við Háskóla Íslands við spurningunni „Hvað er hýdroxíklórókín og gagnast það við COVID-19?“. Samkvæmt frétt á vef Lyfjastofnunar hefur hvorugt þeirra gagnast í meðferð við veirunni í stórum slembiröðuðum rannsóknum.

epa08678439 A nurse wearing her personal protective equipment (PPT) treats a Covid-19 patient in the intensive care unit of Saint-André hospital in Bordeaux, France, 18 September 2020. According to recent reports, the number of Covid-19 patients in intensive care units in the Bordeaux region have increased leading Bordeaux into the red zone.  EPA-EFE/CAROLINE BLUMBERG
 Mynd: epa

Hvetja fólk til að leita læknis finni það fyrir vandamálum

Vegna notkunar lyfjanna við COVID-19 vakti EMA í apríl athygli heilbrigðisstarfsfólks á hættu sem fylgir notkun þeirra, jafnvel í ráðlögðum skömmtum.  Mat á lyfjunum staðfestir að sögn Lyfjastofnunar að þau valda geðrænum vandamálum, jafnvel alvarlegum hjá sjúklingum með fyrri sögu um geðræn vandamál og öðrum. Aukaverkanir af hýdroxýklórókíni geta komið fram innan mánaðar frá upphafi meðferðar, en ekki er hægt að segja til um hve langan tíma í tilfelli klórókíns vegna skorts á fullnægjandi upplýsingum.

Sjúklingar sem nota lyfin tvö og finna fyrir geðrænum vandamálum (til dæmis órökréttri hugsun, kvíða, ofskynjunum, ringlun, depurð eða þunglyndi, þar á meðal sjálfsvígshugsunum eða öðrum hugsunum um sjálfsskaða) eiga umsvifalaust að leita til læknis að sögn Lyfjastofnunar.

Aðstandendur sjúklinga sem taka lyfin eiga sömuleiðis að tala við lækni verði þeir varir við geðræn vandamál hjá þeim sem þau nota.