Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrrum leikhússtjóri dæmdur fyrir nauðgun

Mynd með færslu
 Mynd: youtube
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Jón Pál Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun. Dómurinn var kveðinn upp nú síðdegis.

Vísir greinir frá þessu og fréttastofa hefur fengið dóminn staðfestan. Jóni er gert að greiða brotaþola um 2,5 milljónir króna í miskabætur auk þess að greiða allan sakarkostnað. Brotaþoli fór fram á sex milljónir króna í miskabætur.  Jón krafðist sýknu fyrir dómi.  

Jón Páll lét af störfum sem leikhússtjóri á Akureyri árið 2017 í kjölfar þess að hafa gengist við  alvarlegu kynferðisbroti í kjölfar í #metoo-byltingarinnar, að því er fram kom í fjölmiðlum á þeim tíma. Hann hafði þá verið leikhússtjóri frá árinu 2014. Brotið framdi hann fyrir rúmum áratug. Hann greindi framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar frá málinu í byrjun desember 2017 en gaf út yfirlýsingu nokkrum vikum síðar um að hann hefði sagt upp vegna rekstrarerfiðleika félagsins. Fyrir dómi kom fram að framkvæmdastjóri Menningarfélag Akureyrar hefði ekki haft rétt eftir honum að hann hafi gengist við kynferðisbroti, heldur aðeins að honum hafi verið gefið það að sök. 

Ákæran var þingfest í maí og fór aðalmeðferð fram í byrjun október. Konan krafðist sex milljóna króna í miskabætur og gerði auk þess kröfu um að dæmt yrði um bótaskyldu á grundvelli skaðabótalaga vegna þess tjóns sem hún varð fyrir vegna brotanna sem hún sakaði Jón um.

Í ákærunni kemur fram að hann hafi kastað sér á hana þar sem hún lá í rúmi sínu og haldið henni fastri.

Þegar hún féll í gólfið í átökunum aftraði hann henni að standa á fætur með því að grípa í fótlegg hennar. Hann setti síðan hné í bringu hennar og eftir að hún náði að skríða upp í rúm kom maðurinn á eftir henni og lagðist ofan á hana. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru ekki meira en tvö ár liðin síðan málið var kært til lögreglu. Kynferðisbrot eins og nauðgun fyrnast eftir fimmtán ár.