Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fálkinn geldur fyrir rjúpnaleysi með lífi sínu

30.11.2020 - 11:02
Innlent · fálki · Fuglar · Náttúra
Mynd með færslu
 Mynd: Margrét Sóley Matthíasdóttir - RÚV
Sex dauðir eða deyjandi fálkar hafa fundist hér á landi í nóvember, tveir þeirra á Akureyri í síðustu viku. Fuglafræðingur segir óvenjulegt að fullorðnir fálkar finnist dauðir í þéttbýli og telur líkur á því að rjúpnaleysi sé um að kenna.

Tveir á Akureyri í síðustu viku

Fréttavefurinn Akureyri.net hefur fjallað um fálkadauðann undanfarið. Í þessum mánuði hafa sex dauðir eða deyjandi fálkar fundist hér á landi, þrír ungar og þrír fullorðnir. Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir að oftast þegar fálkar finnist dauðir séu það ungar sem lent hafi í hremmingum á sínum fyrsta vetri. Það sé hins vegar vegar óvenjulegt og merkilegt að fullorðnir fuglar finnist dauðir í þéttbýli. Auk þeirra tveggja sem fundust á Akureyri fannst einn á Seyðisfirði.

Ungfugl í Fossvogi

Einn þeirra ungu fálka sem fundist hafa í þéttbýli á árinu fannst á sólpalli í Fossvogi um miðjan nóvember. Sá var að gæða sér á hettumáfi en eftir máltíðina var fálkinn svo saddur að hann gat ekki hafið sig til flugs og sérstakur fuglavinur frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu flutti hann til dýralæknis. Þaðan var hann fluttur í Húsdýragarðinum þar sem hann drapst.

„Óvenju mikið í nóvember"

„Við fáum á hverju ári hræ af fálkum eða þá deyjandi fálka sem við reynum að hjúkra en það hefur verið óvenju mikið í nóvember. Síðan það sem er að það hafa fundist þrír fullorðnir fálkar núna inn í þéttbýli sem er svona frekar óvanalegt og tveir þeirra ný dauðir," segir Ólafur. 

Gjalda fyrir rjúpnaleysi

Ólafur hefur ekki fengið fálkana í hendur en von er á þeim til Náttúrufræðistofnunar á næstu dögum þar sem þeir verða krufnir. Hann hefur ákveðnar kenningar um hvað olli dauða þeirra. 

„Það sem er erfitt fyrir fálka núna er rjúpnaleysi Það er ekki bara fálkinn sem finnur fyrir því þó hann þurfi gjalda fyrir það með lífi sínu. Rjúpnaveiðimenn upplifa hið sama, það er mjög lítið af rjúpu og erfitt að finna hana. Rjúpan er aðalfæða fálkans. Það má vera að þetta rjúpnaleysi þvingi fálkana til að leita á slóðir sem eru þeim kannski erfiðar." 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Bragadóttir
Fálkinn sem fannst í Fossvogi