Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Erik Jensen nýr formaður Siumut á Grænlandi

30.11.2020 - 12:38
Mynd: KNR-grænlenska ríkisútvarpið / KNR
Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, tapaði í gærkvöld í formannskjöri í flokki sínum Siumut. Erik Jensen, þingmaður Siumut á grænlenska landsþinginu, bar sigurorð af Kielsen í kosningum á landsþingi í Nuuk.  Kim Kielsen hafði verið formaður Siumut frá því 2014 og formaður landsstjórnarinnar frá sama tíma. Arftaki Kielsens, Erik Jensen, er 45 ára hagfræðingur og hefur setið á grænlenska þinginu frá því 2018.

Stoltur og hrærður

Erik Jensen kvaðst í viðtali við KNR, grænlenska ríkisútvarpið, stoltur vegna þess heiðurs sem honum hefði verið sýndur, hrærður og þakkátur. Auk hans bauð Vivian Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins, sig fram gegn Kielsen.
 

Siumut stærsti flokkur Grænlands

Siumut er jafnaðarmannaflokkur, stærsti flokkur Grænlands og hefur farið með völdin mestan hluta þess tíma sem Grænlendingar hafa haft þing og búið við stjórn eigin mála að hluta. Ósigur Kielsens í kjörinu í gærkvöld kom nokkuð á óvart þó að Kielsen hafi verið umdeildur. Margar ákvarðanir hans vöktu óánægju og var efnt til mótmæla gegn stjórninni í Nuuk í síðasta mánuði. 

Lýstu vantrausti á Kielsen

Í fyrra lýstu sex af tíu þingmönnum Siumut vantrausti á Kielsen og kröfðust afsagnar hans. Erik Jensen var einn þeirra sem lýstu vantrausti á formanninn. Þingmennirnir sex og einn ráðherra Siumut sögðu í yfirlýsingu að Kielsen hefði vanvirt þingið og kjósendur og tekið ýmsar ákvarðanir þvert gegn stefnu flokksins. 

Stóð af sér vantrauststillögu

Þá stóð Kielsen naumlega af sér vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar í október. Ekki hefur verið tilkynnt hvort Erik Jensen taki við forystu í landsstjórninni af Kim Kielsen eða hvenær. Jensen segir að það sé þingsins að ákveða hver sé formaður landsstjórnarinnar.

Nýir varaformenn

Vivian Motzfeldt, forseti þingsins, var kjörin varaformaður og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen, sem er hálf-íslensk, var kjörin varaformaður með ábyrgð á skipulagsmálum flokksins. Foreldar Ingu Dóru eru Benedikte Abelsdóttir og Guðmundur Þorsteinsson. Benedikte er fyrrverandi ráðherra í grænlensku stjórninni.