Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Biðla til almennings vegna áhrifa faraldursins

30.11.2020 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Áhrif COVID-19 á tekjuöflun SÁÁ hafa verið mikil og áhrifanna gætir ekki einungis hjá sjúklingum sem fara í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi heldur einnig hjá aðstandendum. Á föstudaginn verður söfnunarþáttur SÁÁ „Fyrir fjölskylduna“ í beinni útsendingu klukkan 19:40 á RÚV.

Vegna faraldursins gátu samtökin ekki staðið fyrir álfasölunni í ár. Hún er að sögn Einars Hermannssonar formanns SÁÁ afar mikilvæg tekjulind, enda séu samtökin sjálfseignarstofnun sem reiði sig „að miklum hluta á sjálfsaflafé.“

Einar segir því stuðning almennings nauðsynlegan til að samtökin geti unnið starf sitt og aðstoðað fólk í neyð vegna áfengis- og vímuefnavanda. Nú bíða um 540 manns eftir að komast að hjá SÁÁ sem hann segir tryggja að þeir sem aðstoð fái geti tekið þátt í daglegu lífi, innan sem utan heimilis. Einar segir það allra hag að þeir sem hjálp þurfi fái hana sem fyrst og þurfi ekki að bíða lengi.

Við leitum nú til almennings um fjáraðstoð til að geta haldið áfram því gríðarlega mikilvæga starfi sem unnið er hjá samtökunum bæði fyrir sjúklinga og ekki síður fyrir börn og aðra fjölskyldumeðlimi,

segir Einar.

Starfsemi SÁÁ snertir ekki einungis sjúklinga, að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur yfirlæknis á Vogi. Um 25 þúsund komur eru árlega á göngudeild SÁÁ og í venjulegu árferði sækja um 650 foreldrar ólögráða barna um meðferð á Vogi. Því má ætla að í það minnsta þúsund börn eigi foreldra sem fara í meðferð á ári. Valgerður bætir við:

Það er mikilvægast fyrir fjölskylduna að sá veiki fái aðstoð sem fyrst. Við erum með sérstök úrræði fyrir fjölskyldur og fyrir foreldra ungra einstaklinga í neyslu. Einnig bjóðum við upp á sérúrræði fyrir börnin.

Valgerður Rúnarsdóttir í Kastljósi
 Mynd: Fréttir
Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi.

Björg Magnúsdóttir og Sigmar Guðmundsson stýra söfnunarþættinum „Fyrir fjölskylduna“ þar sem þau fá til sín þjóðþekkta gesti og ræða áfengis- og vímuefnavandann á opinskáan hátt, bæði frá sjónarhóli sjúklinga og aðstandenda. Biðlað verður til almennings um að ljá SÁÁ stuðning sinn í símasöfnun til að geta staðið áfram að viðeigandi þjónustu fyrir sjúklinga og aðstandendur.

Meðal þeirra sem leggja söfnuninni lið á föstudaginn eru meðal annars Bubbi Morthens, Mezzoforte, Hr. Hnetusmjör, Elísabet Ormslev, Sverrir Bergmann, Grétar Örvarsson og Sigríður Beinteinsdóttir.