Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Beiðni um að stöðva niðurskurð á Syðri-Hofdölum hafnað

30.11.2020 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Beiðni landbúnaðarnefndar Skagafjarðar um að stöðva niðurskurð vegna riðu á bænum Syðri-Hofdölum hefur verið hafnað. Beiðnin kom til eftir að búið var að lóga og taka sýni úr 161 grip sem komst í návígi við sýktan hrút án þess að riða greindist í fleiri gripum.

Ekkert smit í 161 grip sem var í návígi við hrútinn

Í bókun sem landbúnaðarnefndin sendi frá sér þann 10. nóvember lýsti nefndin yfir áhyggjum af stöðunni í Skagafirði eftir að riða greindist þar. Tímabært væri að endurskoða riðuvarnir hér á landi. Þegar beiðnin um stöðvun niðurskurðar kom fram var búið að lóga 161 grip sem komst í návígi við hrút sem hafði greinst smitaður. Ferðir hrútsins voru kortlagðar vel, búið er að slátra öllum dýrum sem komust í návígi við hrútinn og ekkert þeirra greindist með riðu.

Atli Már Traustason bóndi á Syðri-Hofdölum staðfestir í samtali við fréttastofu að beiðninni hefði verið hafnað. Nú bíði hann þess að öllu fé á bænum verði lógað.

Vísuðu í fordæmi

„Nauðsynlegt er að farið verið rækilega ofan í saumana á því hvort skipulögð og markviss hreinsun á býlinu og strangt eftirlit í tiltekinn tíma undir stjórn héraðsdýralæknis og í sátt við nágranna viðkomandi skili ekki sama árangri og ef gripið yrði til niðurskurðar, án fjárhagslegs tjóns fyrir viðkomandi bændur og ríkisvaldið. Fordæmi eru fyrir því innan Skagafjarðar að ekki hafi verið skorið niður allt fé á býli vegna gruns um riðuveiki en í staðinn gripið til annarra aðgerða líkt og bent er á hér að framan,“ segir í bókuninni.

Vildu gera tilraun

„Við viljum prufa að stoppa þennan niðurskurð á Hofdölum og halda fénu sér, að það komist ekki á aðra bæi og ekki í afrétt og sjá til í tvö, þrjú ár hvort einhver riða sé í því. Gera einhverja tilraun aðra en að farga.“ sagði Arnór Gunnarsson, þjónustufulltrúi sveitarfélagsins vegna málsins fyrr í þessum mánuði.  

Ekki náðist í Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni við vinnslu fréttarinnar.